Grænmetisætur eru ekki veikari

Þórdís Ása Dungal skipti yfir í grænmetisfæði og segist líða …
Þórdís Ása Dungal skipti yfir í grænmetisfæði og segist líða miklu betur.

Þórdís Ása Dungal er 25 ára einkaþjálfari og hóptímakennari með mastersgráðu í íþrótta- og heilsufræði. Hún hætti að borða kjöt og segir að grænmetisætur geti alveg verið sterkar og stæltar. Það þurfi ekki kjötát til þess. Hún er líka á móti fæðubótarefnum og segir að fæst þeirra virki fyrir hana. 

„Ég er sífellt að prófa nýja hluti og sjá hvernig þeir hafa áhrif á líkamann minn. Ég hef ótrúlega gaman af því að lyfta og er alltaf að prófa mig áfram í mataræðinu. Árangurinn minn er afleiðing af margra ára ferli sem er enn þá að þróast,“ segir hún og bætir við:

„Fyrir um það bil tveimur árum var ég að prófa mataræði sem kallast carb backloading. Þá borðaði ég rosalega mikið kjöt og fitu, eiginlega of mikið. Síðan fór veganismi að verða mikið í umræðunni á Íslandi og sem einkaþjálfari finnst mér mikilvægt að ég hafi grunn og þekkingu á lífstílsþáttum fólks svo ég ákvað að gerast vegan í smá tíma bara til þess að prófa það. Ég hafði enga tilhneigingu til þess að verða grænmetisæta það sem eftir var en eftir að ég fræddi mig um þetta tókst mér viljandi að sannfæra mig um ástæðurnar fyrir því. Eftir 4 mánuði af vegan ætlaði ég að fara borða kjöt aftur, fékk mér kjúkling og komst að því að mér fannst hann bara hrikalega vondur og leið ekkert vel eftir hann. Líkaminn minn bara vildi þetta ekkert lengur,“ segir Þórdís.

Þórdís segir að kjötát sé einfaldasta leiðin til að uppfylla próteinþörf líkamans. Það innihaldi allar þær lífsnauðsynlegustu amínósýrur sem við þurfum á meðan grænmeti geri það ekki.

„Mýtan er hins vegar sú að það sé eitthvað flókið að setja saman máltíð með öllum amínósýrunum en í rauninni þá er það súper einfalt og gerist alveg sjálfkrafa hjá grænmetisætum á meðan þau eru ekki að borða of einhæft. Næringarskortur kemur fram hjá þeim sem borða of einhæft og óskynsamlega, sama hvort þeir eru kjötætur eða grænmetisætur. Það er aðallega B12 sem grænmetisætur þurfa að huga vel að. Passa að þú sért að fá gæði í vítamínunum og kaupa bara frá viðurkenndum framleiðendum.

Fólk hefur líka oft þá hugmynd að kolvetni séu fitandi, en kolvetni er okkar aðalorkugjafi og líkaminn okkar elskar kolvetni. Við þurfum bara að passa hlutföllin og gæðin á próteini, kolvetni og fitu passi við markmiðin okkar. Ef þú ætlar þér að byggja vöðvamassa sem kjötæta þarftu að fara lyfta meira og borða meira. Ef þú vilt byggja vöðva sem grænmetisæta þarftu að gera nákvæmlega sama hlutinn,“ segir hún.

Aðspurð hver séu stærstu mistökin sem fólk geri í ræktinni segir hún að fólk ætli sér yfirleitt of mikið og of hratt.

„Þeir sem eru alveg á byrjunarreit í styrktarþjálfun þurfa að átta sig á því að fyrstu 4. – 6. vikurnar fara í að svo kallaða taugaaðlögun. Á meðan hún er í gangi er líkaminn ekki að byggja mikinn vöðvamassa heldur að venjast þessu nýja álagi sem á hann er komið. Síðan geturðu farið að byggja að fullum krafti. Árangur gerist yfir langan tíma en því meiri vinnu sem við leggjum í að rækta okkur því hraðar gerist það. 

Fólk sem nær ekki árangri gefst upp of snemma án þess að prófa nýja hluti. Það nennir ekki að skoða hvaðan ástæðurnar koma heldur hætta bara ef eitt virkar ekki. Ef þú ert ekki að ná árangri þarftu að gefa þér tíma til að kanna af hverju ekki. Í flestum tilfellum hjá mínum kúnnum er það mataræðið sem er erfiðasti hlutinn.“

Þórdís er nautsterk og þegar hún er spurð að því hvernig hún fari að því segir hún að lyftingar hafi hjálpað henni mikið til að auka vöðvastyrk.

„Það sem gerir mig sterka er að lyfta þungt og halda áfram á meðan ég get það. Fólk á ekki að vera hrætt við að bæta á stöngina,“ segir hún.

Aðspurð hvað hún sé að borða á venjulegum degi segir hún mataræði sitt mjög fjölbreytt.

„Venjulegur dagur í mínu mataræði inniheldur mikið af alls konar berjum, fræjum, banana, hafra og grænmeti. Einu dýraafurðir sem ég borða eru eggjahvítur og mysuprótein. Einnig tek ég kreatín en öðrum fæðubótarefnum og dufti kem ég ekki nálægt enda flest af þeim alveg gagnslaus.“

Þórdís æfir sex daga í viku og þar af eru fimm lyftingadagar sem hún skiptir niður á vöðvahópa. Einn dag í viku hleypur hún úti til að auka þol.

„Síðan spilar hóptímakennslan alltaf óhjákvæmilegan part í að gera þetta fjölbreyttara. Ég kenni alls konar tíma á borð við hjól, body pump, lyftingar og fleira sem maður þarf að vera með í.“

Þarf fólk að æfa á hverjum degi til að ná árangri?

„Því meira sem þú gerir því meiri verður ávinningurinn. Þú þarft alls ekki að æfa á hverjum degi til þess að ná árangri. En það fer eftir því á hvaða stað þú ert á hversu mikið þú þarf til þess að bæta þig. Einstaklingur sem er vanur að æfa þrisvar í viku gæti þurft að bæta við sig æfingu ef hann ætlar að fara lengra á meðan sá sem æfir ekkert þarf ekki nema 2-3 daga til að byrja með.“

Þegar Þórdís er ekki stödd inni í Hreyfingu að lyfta og kenna eða úti að hlaupa finnst henni gaman að fara á skíði eða á snjóbretti.

„Einnig finnst mér rosa gaman að alls konar tónlist. Ég spila á gítar og syng. Ég passa mig líka reglulega á að gleyma ekki að fara í bæinn að dansa. Eftir að ég útskrifaðist hef ég verið að nýta tímann í að ferðast ein um heiminn. Ég er opin fyrir svo mörgu og alltaf til í að prófa eitthvað nýtt,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál