Komdu þér í gönguform á fjórum vikum

Vilborg Arna Gissurardóttir.
Vilborg Arna Gissurardóttir.

„Hér er ein lauflétt æfingaáætlun fyrir þá sem langar til þess að setja sér fjallgöngumarkmið í sumar. Þetta plan er heppilegt fyrir þá sem vilja t.d. ganga Fimmvörðuháls í sumar, fara Laugaveginn eða sambærilegar gönguleiðir. Útivist er frábær leið til þess að komast í gott form, skoða landið í leiðinni og skapa minningar sem maður lifir á í margar vikur,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir fjalladrottning í sínum nýjasta pistli: 

Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref mæli ég sérstaklega með Fimmvörðuhálsi sem sumarmarkmiði. Leiðin er 22 km og hækkun upp á 1.000 metra. Áætlaður göngutími er allt frá 9 og upp í 12 klst eftir hraða og færi.

Fimmvörðuháls er ein vinsælasta gönguleiðin á Íslandi og ekki að ástæðulausu. Virkilega falleg og fjölbreytt leið sem endar í paradísinni Þórsmörk. Mæli með því að þeir sem eru óvanir fari yfir með ferðafélagi eða reyndari göngumönnum.

Upplýsingar um leiðir má finna t.d. í bókinni Íslensk fjöll eða í nýja göngu-appinu @wappið. Svo eru til frábærar vefsíður og öpp eins og Wikiloc og Gaia GPS sem eru stútfull af upplýsingum.

Hér er skemmtilegt fjögurra vikna æfingaplan. Það er mikilvægt að muna fyrir þá sem eru að byrja að þetta verður alltaf auðveldara í hvert skipti. Fyrir þá sem vilja taka lengri tíma í verkefnið má auðveldlega hafa annað fjallið í vikunni fasta ferð á t.d. Helgafellið og hina ferðina samkvæmt planinu.

Vika 1

1. Mosfell í Mosfellssveit.
– Hæð: 280 m og gönguhringur um 4 km.

2. Úlfarsfell
– Hæð: 295 m og gönguhringur um 5 km.

Vika 2
1. Helgafell í Hafnarfirði.
– Hæð: 338 og mæli með því að menn prófi að ganga hringinn (ekki sömu leið fram og til baka) og þá telur leiðin 5,4 km.

2. Háihnúkur í Akrafjalli
– Hæð: 555 m og leiðin er um 4,6 km

Vika 3
1. Esjan upp að Steini
– Hæð: 586 m og leiðin er um 6 km

2. Móskarðshnúkar
– Hæð: 807 m og 7 km. Nú er mál að skella bakpoka á bakið og æfa framvegis með hann ef þú hefur ekki gert það nú þegar.

3. Leggjabrjótur:
– Hækkun um 500 m og leiðin er um 17 km

Vika 4
1. Helgafell í Hafnarfirði
– Hæð: 338 og mæli með því að menn prófi að ganga hringinn og þá telur leiðin 5,4 km

2. Vífilfell
– 655 m og leiðin er um 5 km

3. Skeggi í Henglinum
– 805 m og leiðin er um 12 km

Nú ættuð þið að vera komin í frábært form og vel í stakk búin til þess að takast á við Fimmvörðuhálsinn.

Helgafell er rétt fyrir utan Hafnarfjörð.
Helgafell er rétt fyrir utan Hafnarfjörð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál