Esther stofnaði heimaskóla sem er nú eftirsóttur

Esther Ösp stofnaði heimaskóla sem nýtur nú vinsælda.
Esther Ösp stofnaði heimaskóla sem nýtur nú vinsælda.

Nýjasti grunnskóli landsins, Ásgarðsskóli, er að hefja sitt annað skólaár. Nemendur skólans eru búsettir vítt og breitt um landið sem og erlendis. Staðsetning þeirra skiptir engu máli því öll kennsla skólans fer fram á netinu. 

Að sögn Estherar Aspar Valdimarsdóttur, skólastjóra Ásgarðsskóla, stunduðu 15 nemendur nám í skólanum á síðasta skólaári og býst hún við svipuðum fjölda eða fleirum í vetur. Segir Esther að þetta fyrsta skólaár í þessum eina grunnskóla landsins, þar sem öll kennsla fer fram á netinu, hafi gengið vonum framar en vissulega hafi ýmsar áskoranir mætt þeim.

„Það sem kom okkur kannski mest á óvart var samsetningin á nemendahópnum. Þegar við fórum af stað með skólann þá höfðum við séð fyrir okkur að við værum að fá unglinga frá dreifbýlli svæðum þar sem ekki fengust sérhæfðir kennara. Við sáum fyrir okkur að skólinn gæti tryggt gæði óháð staðsetningu þannig að fjölskyldur sem kusu að búa fjarri skólaþjónustu þyrftu ekki að hafa áhyggjur af skólagöngu barna sinna. Þá áttum við einnig von á nemendum sem dvelja langdvölum erlendis til dæmis vegna íþróttaiðkunar eða atvinnu foreldra. Það sem kom hins vegar á óvart var hversu hátt hlutfall í hópnum voru krakkar sem voru að glíma við langvarandi skólaforðun. Þetta er greinilega falinn hópur og það var óvænt áskorun að mæta honum. En það gekk vel enda Ásgarðsskóli fullkominn fyrir krakka sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að takast á við áreitið í umhverfi hefðbundinna skóla, áreiti sem erfitt er að stýra, hvort sem það eru frímínútur, birta, hljóð eða hvaðeina. Þegar skólinn er heima þá er einfaldara að tempra allt þetta áreiti,“ segir hún.

Engin bekkjarskipting

Eins og staðan er í dag er námið í Ásgarðsskóla eingöngu fyrir krakka á unglingastigi og fer þannig fram að nemendahópurinn opnar tölvurnar heima hjá sér klukkan níu á morgnana og stendur skólinn að öllu jöfnu til klukkan tvö. Engin bekkjarskipting er í skólanum, öllum nemendum er kennt saman þótt hópasamsetningin sé fjölbreytt og efnistök í verkefnavinnu séu misjöfn eftir færni og hæfni nemanda. Reynt er að vekja áhuga unglinganna á náminu út frá þeirra eigin áhugasviði og styrkleikum. Esther nefnir sem dæmi að ef verið sé að læra um seinni heimsstyrjöldina þá er alltaf ákveðið val í verkefninu. Til dæmis gæti einhver nemandi ákveðið að einbeita sér að skriðdrekunum, annar að tískunni en hvor nálgunin fyrir sig leiðir að sama marki það er að segja að átta sig betur á seinni heimstyrjöldinni. Einhverjum skólastjórnendum og kennurum gæti fundist þetta flókið í framkvæmd enda meiri áhersla lögð á bekkinn í heild sinni í hefðbundnu skólastarfi og minna svigrúm innan kennslustofunnar fyrir einstaklingsmiðaðar þarfir. Í Ásgarðsskóla er þessu akkúrat öfugt farið, þar er það einstaklingurinn sem er í forgrunni.

Breytt álag á kennara

Þá koma nemendur líka á virkan hátt að stjórn skólans, skipuleggja nám sitt og taka beinan þátt í verkefnum sem bæta heiminn. „Þetta er í raun allt femur einfalt þegar náminu er stýrt í gegn um Námsgagnatorgið sem heldur utan um námsefni, viðmið um árangur, verkefnaskil og námsmat. Þetta er bara spurning um viðhorf og við erum með kennara sem sjá þetta ekki sem vandamál. Álagið á kennarann breytist vissulega þegar námið er einstaklingsmiðað. Það er kannski meira að gera utan kennslustundanna en á sama tíma verða þær þægilegri þegar hver einstaklingur er að njóta sín og er að vinna í flæði,“ segir Esther. Hún talar af reynslu því áður en hún hóf störf við Ásgarðsskóla hafði hún sinnt hefðbundinni kennslu og hefur því samanburðinn. Þá er mikil áhersla lögð á samþættingu námsgreina í skólanum en skólanámskráin byggir á Aðalnámskrá grunnskóla og International Middle Years Curriculum.

„Allt námsefnið sem Ásgarðsskóli notar er aðgengilegt inn á Námsgagnatorginu okkar þannig að nemendur þurfa ekki að vera með neinar bækur. Við búum mikið til sjálf en notum einnig efni sem hefur verið gefið út af Menntamálastofnun. Við látum hins vegar aldrei bækurnar stjórna námsferlinu frá a-ö heldur nýtum okkur það sem hentar hverju sinni, til þess að ná markmiðum aðalnámskrárinnar.“

Markviss félagsfærni

Þó skólinn hafi fengið jákvæðar viðtökur segir Esther að það sem fólk hafi hvað mestar áhyggjur af og spyr mikið um sé félagsfærni nemenda. Hvernig er hún eiginlega þegar öll samskipti fara fram í gegnum tölvuna? „Já það eru aðalgagnrýnisraddirnar sem við höfum fengið, en við pössum mjög upp á það að hafa félagsfærniþjálfun inn í skóladeginum. Ég held reyndar að fáir skólar hafi markvissa félagsfærni á dagskrá hjá sér heldur er frekar reiknað með að það gerist sjálfkrafa í frímínútunum. En félagsfærni er eitthvað sem þarf sannarlega að huga að hjá ungmennum í dag. Á sumum heimilum er ekkert lengur spjallað saman, fjölskyldan er bara hver í sínu tæki við matarborðið, svo auðvitað byrjar þetta þar.“

Esther bætir við að það hafi reyndar komið kennurum skólans á óvart hversu lítil hindrun það var í augum krakkanna að eiga samskipti í gegnum netið og hversu vel það gekk. „Það sýndi sig vel síðasta vetur að það var vel hægt að skapa samheldinn nemendahóp þótt við værum ekki á sama stað. Þar sem hópurinn varð svona þéttur og góður, þá ákváðu krakkarnir sem voru staðsettir á Íslandi að hittast í vor og gera sér glaðan dag saman í Reykjavík sem tókst ótrúlega vel,“ segir Esther sem sér fyrir sér að slíkir hittingar á haustin og vorin geti orðið fastur liður í skólastarfinu. Þá er skólinn líka nýbúinn að stofna sína eigin félagsmiðstöð, Í skýjunum, sem er komin með aðild að Samfés. „Við fundum að krakkarnir þurftu meira rými til þess að hanga saman og gera það sem þeim langar og því byrjuðum við með þessa félagsmiðstöð sem var með viðburði tvisvar í viku. Það eru krakkarnir sem stýra alveg hvað fer fram þar, en undir leiðsögn, og svo tökum við líka þátt í viðburðum Samfés,“ segir Esther. Áhugi er fyrir því að opna félagsmiðstöðina fyrir fleirum en bara nemendum skólans en það verði að þróast í rólegheitum í takt við fjármögnun og óskir unglinganna.

Gjaldfrjáls skólaganga

Ásgarðskóli er í eigu Í skýjunum sem er systurfyrirtæki Ásgarðs, einkafyrirtækis sem veitir faglegan stuðning og ráðgjöf til fræðsluaðila, sveitarfélaga og menntastofnana. Skólinn er með þróunarskólaleyfi frá menntamálaráðuneytinu til þriggja ára. Skólinn er með þjónustusamning við sveitarfélagið Reykhólahrepp, en ekki er leyfilegt að reka grunnskóla á Íslandi nema þjónustusamningur sé til staðar við að minnsta kosti eitt sveitarfélag. Skólapláss við skólann er gjaldfrjálst en til þess að hægt sé að skrá barn í nám við skólann sem ekki býr í Reykhólahreppi þurfa forráðamenn barnsins að sækja um námsvist utan lögheimilis. Lögheimilissveitarfélagið þarf að samþykkja flutninginn en með flutningnum flytjast þeir peningar sem sveitarfélagið hefði annars nýtt í menntun barnsins til Ásgarðsskóla. Ef sveitarfélagið samþykkir ekki flutning en forráðamenn vilja samt sem áður skrá barnið í skólann þá þurfa foreldrarnir að greiða að fullu fyrir skólagöngu barnsins. Þetta á einnig við um börn sem eiga lögheimili erlendis. Upphæðin miðast við viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga og er svipuð og í einkaskólum erlendis. „Það er misjafnt eftir sveitarfélögum hvort þau samþykkja flutning en ég hef á tilfinningunni að í þeim tilfellum sem beiðnum hefur verið hafnað að þá ætli sveitarfélögin að vinna að betri nálgun fyrir barnið heima fyrir. Sem er auðvitað ákveðinn sigur líka því auðvitað er þetta ákveðið tækifæri til uppbyggingar og fyrir sveitarfélögin að gera betur.“

Styðja við heimakennslu

Auk hefðbundins skólastarfs, sem er þó í eðli sínu óhefðbundið þar sem það fer allt fram á netinu, hvort sem um er að ræða íþróttir, heimilisfræði eða önnur fög, þá er skólinn einnig með ýmis önnur áhugaverð verkefni í gangi. Í haust er til dæmis að fara af stað tilraunaverkefni sem kallast „Home but not alone“ eða „Ekki týnast heima“. Verkefnið gengur út á það að búa til, prófa og útfæra heimaskóla í samvinnu og samstarfi við tvo pólska skóla og ráðgjafaþjónustu.

„Partur af því að vera þróunarskóli er að koma með nýjar nálganir og lausnir sem geta hjálpað skólakerfinu. Foreldrar sem skrá sig í þetta heimaskólaverkefni fara á námskeið hjá okkur og fá aðgang að okkar námsefni og Námsgagnatorginu en það eru foreldrarnir sem stjórna daglega starfinu. Við erum ráðgefandi stuðningsaðili og metum hvernig heimaskólaplönin ganga. Þetta verkefni hefur það markmið að finna leiðir til að færa sönnur á að foreldrar geti kennt börnum sínum og fá yfirvöld til þess að átta sig á því,“ segir Esther og bætir við að eins og staðan sé í dag þá þurfa íslenskir foreldrar að vera með leyfisbréf til kennslu til þess að geta kennt börnum sínum heima. Með því að skrá sig í verkefnið hjá Ásgarðsskóla þá auðveldar það allt ferlið bæði fyrir fjölskyldurnar og sveitarfélögin sem geta orðið frekar ráðvillt varðandi það hvernig eigi að fylgja eftir eftirliti með börnum í heimaskóla.

Það er ekki hægt að kveðja Esther án þess að spyrja hana hvernig hún sjái fyrir sér að þessi nýjasti og nýstárlegasti skóli landsins þróist. „Auðvitað sé ég fyrir mér að skólinn vaxi og dafni og nemendum fjölgi jafnt og þétt. Markmið okkar er að nemendamiðað nám óháð staðsetningu verði raunverulegt val fyrir alla. Það tekur alltaf tíma að sanna sig en þeir sem hafa verið í sambandi við okkur og kynnt sér starfið hafa sannfærst hægt og rólega um að þetta sé hægt. Fólk sá í Covid hvað hægt var að gera með fjarkennslu, við erum bara að taka þetta skrefinu lengra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál