Keypti sér íbúð í stað þess að fara á Eurovision

Ragnhildur Sara Arnarsdóttir skrifaði lokaritgerð um Euorivison.
Ragnhildur Sara Arnarsdóttir skrifaði lokaritgerð um Euorivison. Ljósmynd/Aðsend

Þjóðfræðingurinn Ragnhildur Sara Arnarsdóttir hefur skoðað Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva meira en margir aðrir. Ragnhildur skrifaði lokaritgerð í þjóðfræði um Eurovision. 

Ragnhildur segist vera með nokkuð eðlilegan áhuga á Eurovision. Margt fólk fylgist með undankeppnum í öðrum löndum. „Ég horfi bara á íslensku söngvakeppnina og svo öll þrjú kvöld Eurovision-keppninnar. Mér finnst ég ekki geta horft bara á lokakvöldið, því maður veit aldrei hvort maður komist áfram eða ekki,“ segir Ragnhildur. 

Hátíð inniheldur mat, fögnuð og undirbúning

Ragnhildur segir þjóðfræði ná utan um allt sem tengist hversdeginum. Matur, hvað fólk gerir, segir eða á hvað það trúir rammast innan þjóðfræðinnar og þar með talið Eurovision líka. 

„Vinkillinn á minni BA-ritgerð um Eurovision var hvort keppnin væri hátíð eða ekki. Sú hugmynd kom í kjölfar þess að ég heyrði „gleðilega hátíð“ þegar Eurovision hófst eitt árið og ég var í námskeiði um hátíð, skemmtanir og leiki. Þá fannst mér áhugavert að vita hvort fólk taldi keppnina almennt vera hátíð eða hvort það væri bara fyrir þá sem héldu upp á hana sjálfir. Miðað við hversu mikill áhugi er á keppninni hér á landi þá kom mér á óvart hversu fáir höfðu gert rannsóknir um hana. Allir viðmælendur mínir voru sammála um að Eurovision væri hátíð. Því hátíð inniheldur mat, fögnuð, hefðir, skreytingar og undirbúning sem á vel við um Eurovision,“ segir Ragnhildur. 

Tók ákvörðun um að sleppa pólitík

Það eru ekki allir sem hafa áhuga á Eurovision. 

„Ég hélt í fyrstu að það yrði erfitt að fá viðmælendur sem höfðu engan áhuga á keppninni, því Ísland er jú sjúkt í Eurovision, en svo var ekki. Þau sem ég talaði við komu með þau svör að það væri umstangið í kringum keppnina sem pirruðu þau, endalausar auglýsingarnar og umræðurnar sem heltaka þjóðina bæði í febrúar og aftur í maí.

Einnig kom það upp að þeim fyndist keppnin vera fölsk. Hún á að endurspegla sameinaða Evrópu og var stofnuð til þess. Allir eru svo klikkaðslega hamingjusamir þegar á sama tíma geysa stríð og það á bara að gleyma því á meðan keppnin stendur yfir. Þegar ég var að skrifa ritgerðina árið 2019 þá átti að halda keppnina í Ísrael. Fólk gleymir því seint þegar Hatari hélt uppi fánanum Palestínu vegna stríðsins við Ísrael og fékk þvílíkar skammir fyrir en í ár mega Rússar ekki að keppa vegna stríðsins í Úkraínu.

Hatarar veifuðu borðum með palestínska fánanum og öll Evrópa fylgdist …
Hatarar veifuðu borðum með palestínska fánanum og öll Evrópa fylgdist með. Skjáskot/RÚV

Keppnin segist vera ópólitísk en er það engan veginn, það segir sig sjálft. Ég tók þá ákvörðun að skrifa ekki neitt um stríð eða óeirðir í minni ritgerð því ég vildi halda í þennan upphaflega anda Eurovision, sem var að styrkja bandalag Evrópskra þjóða,“ segir Ragnhildur. 

Partýin skipa mestu máli

„Þeir viðmælendur sem halda mikið upp á Eurovision segja keppnina vera eintóma gleði og hamingju og hlakka til hennar hvert einasta ár. Ég er á sama báti og er mín hefð að fara í Eurovision partý. Þau sem halda ekki upp á hátíðina viðurkenndu að þeim fyndist þó gaman að fara í partýin enda væri það aukaatriði að Eurovision væri á í bakgrunninum.

Þegar Eurovision er í gangi tæmast göturnar og margir grilla og fá sér snakk með Vogaídýfu. Sumir eru með þemapartý og með getraunaleik. Drykkjuleikirnir geta einnig verið mjög frumlegir en hægt er að finna ýmsar útgáfur á netinu. Persónulega finnst mér besta reglan að þurfa að taka sopa þegar atriði notar vindvél.

Eurovision er svo fjölbreytt en samt alltaf með sama sniði, þar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem það er að spá og spekúlera í sviðsetningu, búningum og tónlistinni eða fá ástæðu til að gera sér dagamun og hitta vini og fjölskyldu. Það er hægt að taka keppnina mjög alvarlega eða hlæja að hversu kjánalegt þetta allt saman er.“

Daði og Gagnamagnið keppti í fyrir Íslands hönd í fyrra.
Daði og Gagnamagnið keppti í fyrir Íslands hönd í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gleðileg hátíð í nýrri íbúð

Ragnhildur hefur ekki enn farið út á keppnina en ætlar þó að halda gleðilega hátíð. 

„Ég væri til í að upplifa það að fara á keppnina en ég var að kaupa íbúð svo það verður að bíða betri tíma. Það verður þó heldur betur slegið í partý. Ég er alltaf búin að horfa að minnsta kosti einu sinni á öll atriðin á YouTube áður en allt hefst, til að geta myndað mér skoðun. Undirstöðuatriðið er bara að fólk geti komið sér saman, gleymt sér í smá tíma frá amstri dagsins og eigi gleðilega hátíð,“ segir Ragnhildur brosandi. 

Ragnhildur ætlar að skemmta sér vel í ár í nýrri …
Ragnhildur ætlar að skemmta sér vel í ár í nýrri íbúð. EBU/Nathan Reinds
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál