Ástríður æfir líkamann með silkislæðum

Ástríður Jósefína hefur tileinkað sér að vera jákvæð í lífinu.
Ástríður Jósefína hefur tileinkað sér að vera jákvæð í lífinu. mbl.is/Árni Sæberg

Ástríður Jósefína Ólafsdóttir listakona flutti frá Ítalíu til Íslands á síðasta ári. Hún segir íslenska veturinn heillandi og hefur komið sér upp alls konar leiðum til að líða vel hér í myrkrinu og kuldanum. 

„Ég elska veturna á Íslandi. Myrkrið er ekki að angra mig. Það er frekar að hafa þau áhrif að ég er meira inni hjá mér. Meira en ég er vön í það minnsta. Það er góð leið að forðast kuldann að vera inni, en svo finnst mér líka mjög frískandi að fara út að ganga þegar veðrið er brjálað. Það virkar valdeflandi á mig. Ég get staðhæft að ég kann að meta íslenskan vetur; enda hef ég tileinkað mér að sjá það jákvæða við lífið.“

Ástríður hefur verið að mála málverk að undanförnu þar sem rautt silki er í aðalhlutverki. 

„Í öllu listrænu starfi hef ég verið með fókusinn á líkama mannsins og hreyfingu hans. Sér í lagi hvernig hann tengist, aðlagar og hreyfist í rýminu hverju sinni. Ég hef verið að teikna dansara; í raun verið að tjá dans á striga og stundum nota ég jafnvel minn eigin líkama til að gera ný verk.“

Málverk eftir Ástríði Jósefínu.
Málverk eftir Ástríði Jósefínu.

Árið 2014 uppgötvaði Ástríður Jósefína æfingar með silkislæðum sem gaf henni alls konar listrænar hugmyndir að vinna með. 

„Aerial silk practices, æfingar með silkislæðum, gaf mér nýtt tækifæri til að rannsaka líkamann og hvernig hann bregst við í þessum aðstæðum. Æfingarnar eru gerðar með tveimur silkislæðum sem hanga úr loftinu og eru þessar æfingar fremur nýlegar og enn þá verið að þróa hvert fara má með þær.

Æfingarnar bjóða upp á alls konar nýsköpun en það var Cirque du Soleil sem gerði þær fyrst vinsælar árið 1987.

Í nýjasta verkinu mínu sem heitir „Panneggio series“ ákvað ég að setja fókusinn á silkið. Í öðrum hluta verksins má sjá för eftir líkamann í silkinu og svo leik ég mér með ljósi og þyngdarafli til að búa til skúlptúra sem ég síðan mála á striga. 

Ætli það sé ekki rómantíska viðhorfið mitt sem fær mig til að beina athyglinni minni að hefðbundnum olíuverkum. Nafn verkanna vísar í gamla tækni sem meistararnir notuðu hér á árum áður og er kennd í „fine arts“-listaháskólum víða um heiminn.“

Hvað er á döfinni á næstunni?

„Það verður hægt að sjá verkin mín á fyrstu listasýningu minni í Reykjavík sem verður í Máli og menningu á Laugaveginum bráðlega þegar reglur um listasýningar verða þannig að fólk getur farið á listasýningar eins og við erum vön að gera.“

Ástríður Jósefína gerir æfingar sjálf með silkinu. 

„Ég hef alltaf verið með tvær listrænar þarfir; að hreyfa mig og að skapa á skemmtilegan hátt. Ég æfi Aerial silks þrisvar í viku og geri auk þess styrktaræfingar til að hafa kraft til að gera æfingarnar vel. Sér í lagi svo ég geti hvolft mér og gert þær þannig. Þegar ég geng um borgina er ég alltaf að leita að stöðum þar sem ég get gert æfingarnar, svo ef ég finn sterkt tré eða planka í góðri hæð þá er ég alltaf til í að gera æfingar á þeim stað. Í raun má segja að þeim mun hærra uppi í loftinu, þeim mun betra, að mínu mati.“

Ástríður er að æfa um þessar mundir með hópnum Kria aerial arts. Þau eru að undirbúa sýningu sem ber nafnið „Game On“. Hópurinn mun sýna í fyrsta skiptið í júlí á þessu ári á Reykjavík Fringe-hátíðinni ef kórónuveiran gefur okkur svigrúm til þess. Verkið er áhugavert þar sem sýndarveruleikanum er stillt á móti raunveruleikanum, tengslum á móti skort á tengslum og svo eru alls konar flóttaleiðir og leikir túlkaðir.

Málverk af silki eftir Ástríði Jósefínu.
Málverk af silki eftir Ástríði Jósefínu.

Hvaða áhrif hafa þessar æfingar á líkamann?

„Þær gera líkamann sterkan og í formi og gefa mér tækifæri á að dansa í loftinu, að fá adrenalín í líkamann og að vera skapandi. Fyrir mér er þetta hin fullkomna æfing.“

Hvernig ertu að upplifa ástina á Íslandi miðað við á Ítalíu?

„Ástin er einföld en á sama tíma flókin. Ég trúi á ástina óháð því hvar ég er stödd í heiminum. Ástin er kraftaverk svo ef maður er svo heppinn að finna hana er um að gera að láta sig dreyma í því ferli.“

Ástríður segir að hún sýni sjálfri sér ást daglega með því að borða hollan mat og að æfa.

Heldurðu upp á Valentínusardaginn?

„Nei, því ef þú elskar einhvern þá þarftu ekki sérstakan dag til að segja þér að gera eitthvað sérstakt fyrir ástina þína, heldur gerir þú hvert augnablik af deginum sérstakt með því að veita viðkomandi ást, með því að hlusta og vera ástúðlegur og til staðar daglega.“

Trúir þú að tjáning sé í gegnum fatnað og fas?

„Já ég trúi því. Ég er að reyna að vera minimalísk svo ég kaupi mjög lítið af fatnaði. Eftir að ég las bókina hennar Marie Kondo losaði ég mig við mikið af dóti svo í dag á ég aðeins það sem ég nota.

Hárið mitt hefur alltaf verið langt og ljóst og hef ég aldrei litað það. Ég leyfi bara náttúrunni að gera það sem hún getur gert, svo hárið á mér vex villt og ég klippi það einungis einu sinni á ári, eða jafnvel sjaldnar. Ég held að það útskýri stílinn minn og kannski er hárið mitt staðfesting á þeim hluta mér sem er safnari.“

Ástríður er mikið fyrir mat og opin fyrir því að prófa sig áfram á því sviði. 

„Gott mataræði að mínu mati er þannig að maður borðar pínulítið af öllu. Við þurfum allt sem náttúran býr til fyrir okkur, en við þurfum að finna jafnvægið og vera hófsöm og ekki gera of mikið í einhverri einni matartegund.“

Hún fylgist ekki með tískunni en hefur gaman að því að vera skapandi. 

„Ég er með minn eigin stíl sem ég bý til með fatnaði úr fágætum tímabilsverslunum. Að klæða sig upp á getur verið skemmtilegt listrænt ferli. Ég losaði mig við mikið af hlutum og fatnaði á ákveðnu tímabili í mínu lífi en hélt eftir safni af búningum sem ég átti. Ég hef alltaf haft áhuga á hugmyndinni um að klæða sig upp á. Að verða einhver annar með stoð búninga. Ég hef mikinn áhuga á því.“

Rautt silki eftir Ástríði Jósefínu.
Rautt silki eftir Ástríði Jósefínu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál