„Ég vona að hún reki mig ekki“

Atli Þór Albertsson og Guðný Ósk Sigurgeirsdóttir stofnuðu fasteignasölu eftir …
Atli Þór Albertsson og Guðný Ósk Sigurgeirsdóttir stofnuðu fasteignasölu eftir kórónuveiruna.

Markaðsstjórinn og skemmtikrafturinn Atli Þór Albertsson fetar nú nýja braut eftir að hann og eiginkona hans, Guðný Ósk Sigurgeirsdóttir, stofnuðu á dögunum fasteignasöluna Stofuna. 

Atli Þór lét af störfum sem sölu- og markaðsstjóri hjá Þjóðleikhúsinu í sumar og fór í kjölfarið á fullt í fjölskyldureksturinn.

„Það má segja að ég hafi látið undan þrýstingi því Guðný var búin að ýta þó nokkuð á mig að gera þetta með sér enda verið mikið að gera hjá henni í fasteignasölu undanfarin ár. Ég bara einhvern veginn sá mig ekki í þessum bransa. Atli fasteignasali, ég veit bara ekki hvort ég muni nokkurn tímann venjast því,“ segir hann. 

„Það er rétt, ég hafði lengi hvatt hann til að koma að vinna með mér en hann vildi ekki heyra á það minnst. Ætli honum hafi ekki frekar fundist það erfið tilhugsun að hafa mig sem yfirmann en starfsheitið fasteignasali. Hann þarf líka að læra þetta ef hann ætlar að kalla sig fasteignasala því starfsheitið er lögverndað,“ bætir Guðný við og hlær. „Þar til hann gerir það má hann lítið annað gera en að aðstoða mig, en hann hefur bara gott af því. Að öllu gríni slepptu þá hefur þetta samstarf okkar hingað til bara haft jákvæð áhrif á okkur og börnin okkar líka,“ bætir hún við og Atli tekur undir það. „Ég hélt þetta væri ekki hægt, ég viðurkenni það alveg,“ segir hann.

Atli Þór Albertsson.
Atli Þór Albertsson.

Af hverju núna?

„Eftir tíma okkar saman heima í kófinu komst ég að því að ekki aðeins gæti ég unnið undir sama þaki og konan mín heldur reyndist það samstarf hreinlega bæta lífið. Viðtökurnar hafa líka verið frábærar og verkefnin raðast inn svo við erum augljóslega að gera eitthvað rétt, sem er ánægjulegt,“ segir hann. 

„Samstarfið hófst einmitt í stofunni heima svo við ákváðum að kalla fasteignasöluna sama nafni; Stofan,“ segir Guðný.

„Já, það var heppilegt að þetta byrjaði ekki í bílskúrnum, það hefði verið verra nafn á fyrirtækið,“ bætir Atli við. Stofan er til húsa í verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði enda búa Guðný og Atli í bænum.

Atli, hefur þú sagt skilið við skemmtanabransann?

„Nei alls ekki, ég er einmitt að veislustýra um næstu helgi og haustbókanir þegar farnar af stað. Ég þrífst best í ólíkum verkefnum og sé ekki fyrir mér að breyta neinu þar. Svo langar mig líka aftur í útvarpið, það er einhver skemmtilegasta vinna sem ég þekki,“ segir hann.

Guðný Ósk Sigurgeirsdóttir.
Guðný Ósk Sigurgeirsdóttir.

Hjónin hafa ekki setið auðum höndum í gegnum tíðina og fengist við marga og ólíka hluti.

„Við eigum það til að taka margt að okkur. Ég var um tíma í fullri vinnu sem markaðsstjóri, var líka með Bakaríið á Bylgjunni á laugardagsmorgnum, kenndi í Bjórskóla Ölgerðarinnar, veislustýrði og skemmti um helgar, sá um útleigu á sumarhúsi til ferðamanna, las auglýsingar fyrir Dominos og Eurojackpot á sama tíma og við vorum að taka húsið okkar í gegn. Ég viðurkenni að það hafi líklega verið of mikið enda eigum við fjögur börn sem þarf líka að sinna,“ segir hann.

Guðný er viðskiptafræðingur en kýldi á áform sín um að selja fasteignir eftir að hafa starfað hjá Valitor og Eimskip um árabil.

„Mig langaði bara að vinna hjá sjálfri mér við eitthvað sem ég kann og gengur vel í. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun en hún var ekki auðveld því það var mjög gott að vinna hjá Valitor og ég vissi lítið hvað biði mín.“

Guðný hefur undanfarin ár einnig hannað og framleitt spiladósir og hönnunarvörur undir merkinu GÓSS og hefur nýjasta vörulínan, Platti, fengið góðar viðtökur. „Þetta er mín leið til að slaka á og hreinsa hugann, að hekla, prjóna og hanna hluti. Það er svo bara bónus að afraksturinn af því veki athygli. Spiladósirnar seldust til að mynda svo vel til erlendra ferðamanna að ég annaði ekki eftirspurn, þá minnkaði aðeins gleðin í þessu því þetta varð kvöð og pressa. Ég geri þetta til að njóta.“

Guðný og Atli segjast finna fyrir miklum meðbyr. 

„Það kom okkur í raun á óvart hversu miklar og góðar viðtökur við fengum þegar við opnuðum Stofuna því við töldum okkur galin að fara út í þetta á þessum tímapunkti. Fasteignamarkaðurinn er líflegur um þessar mundir og fasteignalán hafa aldrei verið hagstæðari. Fólk þarf öruggt þak yfir höfuðið og sú krafa mun aldrei breytast. Við verðum bara að halda áfram að sanna okkur í þessu umhverfi og hlökkum til að takast á við þá áskorun,“ segir Guðný.

„Ég vona bara að ég standist kröfurnar svo hún þurfi ekki að reka mig, það myndi flækja málin heima fyrir,“ segir Atli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál