Þetta getur dregið úr hættunni á kulnun í starfi

„Núvitund í vinnunni getur verið fyrirbyggjandi gegn vinnustreitu og dregið úr hættu á kulnun í starfi. Í dag, þegar vinnuálag er sífellt að aukast, er mjög mikilvægt að einstaklingar geti notað einhver fyrirbyggjandi verkfæri til að lágmarka streitu. Aðskilnaðurinn milli heimilis og vinnu er mun minni í dag en áður vegna tækninnar sem er ætíð aðgengileg og sveigjanlegs vinnutíma meðal annars. Það getur verið mjög streituvaldandi að geta aldrei „stimplað“ sig út almennilega þegar vinnupósturinn er dettandi inn eftir formlegan skrifstofutíma,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir, sálfræðingur og markþjálfi, í sínum nýjasta pistli: 

Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og markþjálfi.
Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og markþjálfi.

Rannsóknir hafa sýnt að núvitund (e. mindfulness) getur dregið úr streitu, þunglyndi og kvíða og jafnframt virkað sem fyrirbyggjandi. Að auki tekur það ekki of mikinn tíma á annasömum degi. Þú getur jafnvel notað það á vinnustaðnum sjálfum á einfaldan hátt.

Hér eru nokkrar mismunandi æfingar sem þú getur byrjað á til að vera meira til staðar:

1. Að vera hér og nú: Þú getur byrjað vinnudaginn þinn með það að markmiði að vera algjörlega til staðar. Til dæmis, ef vinnan þín krefst þess að þú skrifir skýrslu um eitthvað ákveðið, reyndu að setja alla athyglina þína í þessa skýrslu. Ef einhverjar hugsanir koma upp (til dæmis að muna eftir að svara tölvupósti), þá getur þú ímyndað þér að hugsunin sé eins og bíll sem keyrir hljóðlega fram hjá. Þú þarft ekki að svara hugsuninni vegna þess að þú ert til staðar í skýrslugerðinni á því augnabliki.

2. Hættu að „multitaska“ og byrjaðu að „single taska“ – gera eitt í einu. Margir einstaklingar halda að það að vinna í mörgum verkefnum á sama tíma (e. multitasking) sé mjög afkastamikil aðferð. Því miður hafa rannsóknir sýnt að heilinn á erfitt með að  færa athyglina stöðugt til nýrra verkefna. Reyndu að gera eitt í einu og gera það þá almennilega og byrja svo á næsta verkefni. Þetta atriði er mjög tengt punkti nr. 1.

3. Virk hlustun: Þegar þú er í samræðum við samstarfsfélaga þinn af einhverjum ástæðum, reyndu að æfa þig í virkri hlustun. Notaðu öll skilningarvit þín til að hlusta og taka eftir því hvernig viðkomandi talar og er í framkomu sinni.  Notaðu forvitni þína, yfirvegun og hreinskilni án þess að dæma.

4.  Einbeittu þér að önduninni. Ef þú finnur fyrir streitu í vinnunni skaltu prófa að einbeita þér að önduninni. Ef hugur þinn er á fullu og þú átt erfitt með að róa hugann, reyndu að segja við sjálfan þig „núna er ég hér og nú“. Flestar hugsanir sem tengjast kvíða og streitu tengjast fortíðinni eða framtíðinni. Ef þú getur verið hér og nú í önduninni getur þú ekki verið í fortíðinni eða framtíðinni. Djúp öndun róar líka taugakerfið sem er oft á tíðum of virkt undir langtíma streitu.

Á þeim nótum vil ég nefna nokkra kosti þess að vera meira í nútvitund á vinnustaðnum:

- Uppbyggilegri samskipti við samstarfsfélaga

- Þú upplifir meiri jákvæðni

- Þú verður afkastameiri

- Betri stjórnunarhæfileikar

- Meiri trúverðugleiki

- Meiri sköpunargleði

- Betri ákvarðanataka

- Minni streita

- Minni kvíði

Byrjaðu að æfa núvitund í dag. Það tekur tíma fyrir heilann að róa hugann og vera til staðar og þetta er þjálfun. Ekki gefast upp. Einungis 10 mínútur á dag dregið úr streitu og kvíða og ýtt undir meiri gleði og hvatningu.

Ef þú ert komin/n með alvarlegri einkenni vinnustreitu (líkamleg og andleg) eða upplifir kulnun í starfi mæli ég alltaf með að þú leitir þér hjálpar hjá fagaðila. Því fyrr sem einstaklingar leita sér hjálpar því betra.

Ef þér liggur eitthvað á hjarta getur þú sent fyrirspurn HÉR.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál