Geta fundið bestu kjörin í hvelli

Þórhildur Jensdóttir.
Þórhildur Jensdóttir.
Ólafur Örn Guðmundsson.
Ólafur Örn Guðmundsson.


Verðsamanburður hjá Aurbjörgu getur hjálpað notendum að spara háar fjárhæðir við sölu á fasteign og margar milljónir í afborgunum af lánum. 

Töluverður munur er á verðskrám lánveitenda og fasteignasala svo að munur stundum milljónum á hagstæðasta valkostinum og þeim óhagstæðasta. Þetta má sjá þegar gerður er samanburður á vefsíðunni Aurbjorg.is.

Það voru þau Ólafur Örn Guðmundsson og Þórhildur Jensdóttir sem settu Aurbjörgu í loftið 2017, en þau stunda núna meistaranám í hugbúnaðarverkfræði í Danmörku. „Við byrjuðum á reiknivél fyrir húsnæðislán en bættum smám saman við fleiri leiðum til samanburðar, s.s. á sparnaðarleiðum bankanna, gjöldum og eiginleikum greiðslukorta, og gjaldskrá raforkusala,“ útskýrir Ólafur en samanburður á þóknunum fasteignasala og farsímafyrirtækja bættust nýlega við.

Þær upplýsingar sem Aurbjörg birtir eru nær alfarið sóttar sjálfkrafa af hugbúnaði sem skimar valdar vefsíður, og tölurnar uppfærðar daglega. Aurbjörg er öllum opin og ókeypis og segir Ólafur að verkefnið sé aðallega rekið fyrir hugsjón þó að Aurbjörg hafi lítils háttar tekjur af því að fyrirtæki geta boðið upp á þjónustu við neytendur í gegnum vefinn.

Góð yfirsýn yfir flókinn markað

Þeir sem reynt hafa vita að það getur verið bæði flókið og tímafrekt að bera saman kjör á fasteignalánum og verðlista fasteignasalanna. Samanburðurinn getur þó heldur betur borgað sig og er t.d. ríflega 600 þús. kr. munur á þóknun dýrustu og ódýrustu fasteignasölunnar þegar seld er 40 milljóna króna eign.

Þá getur verið breytilegt eftir því hvað eignin kostar, og hve miklum vinnustundum er varið í söluna, hvaða fasteignasala býður lægsta verðið. Þær tölur sem Aurbjörg birtir eru teknar saman í samvinnu við Fasteignasolur.com og sýna t.d. að miðað við 10 tíma vinnu er sú fasteignasala sem rukkar lægstu þóknunina fyrir 15 milljóna króna eign með fjórða lægsta verðið þegar verð fasteignarinnar er komið upp í 70 milljónir. Fyrir veglega 120 milljóna króna eign munar, ef áfram er miðað við sama fjölda vinnustunda, rúmlega 1,7 milljónum á hæstu og lægstu þóknun.

„Á móti kemur að erfitt er að bera saman þætti á borð við hversu gott orðspor fatseignasölurnar hafa, eða hve duglegir fasteignasalarnir eru að finna kaupanda og hjálpa seljandanum að fá sem best verð fyrir eignina,“ bætir Ólafur við.

Léttari fjárhagslegri byrðar

Eins flókið og það er að hafa yfirsýn yfir gjaldskrár fasteignasalanna þá er ennþá snúnara að bera saman valkostina þegar kemur að fasteignalánum. Bankar og sjóðir gera misháar kröfur um veðhlutfall, bjóða ýmist verðtryggð lán eða óverðtryggð, með föstum eða breytilegum vöxtum. Sumir lána öllum, á meðan aðrir veita aðeins viðskiptavinum sínum eða sjóðsfélögum lán, og sumir rukka uppgreiðslugjald á meðan aðrir gera það ekki.

Breyturnar eru ótalmargar en hjá Aurbjörgu tekur stutta stund að gera ítarlegan samanburð. Kemur t.d. í ljós að miðað við 30 milljóna króna óverðtryggt lán til 40 ára, með jöfnum greiðslum, myndi á lánstímanum muna rétt rúmlega 4 milljónum á hagstæðasta láninu með breytilegum vöxtum og því fjórða hagstæðasta, eða að meðaltali nærri 100.000 kr á ári.

Í sama dæmi væri allradýrasti kosturinn, með 7,4% föstum vöxtum til 5 ára, hvorki meira né minna en 18,5 milljónum dýrari yfir lánstímann en hagstæðasta lánið sem veitt er með 5,6% breytilegum vöxtum.

Er munurinn enn meiri á hagstæðasta og óhagstæðasta verðtryggða láninu, eða 32 milljónir yfir lánstímann, ef miðað er við meðalverðbólgu undanfarna tólf mánuði. Myndi sá sem tæki óhagstæðasta lánið því greiða 800 þús kr. meira á ári en sá sem fengi hagstæðasta lánið.

Ólafur segir að þeim fari fjölgandi sem noti Aurbjörgu til að leita góðra kjara og fær vefsíðan tæplega 20 þús. heimsóknir á mánuði. Erfitt er að reikna hver háar upphæðir notendur hafa getað sparað sér með aðstoð Aurbjargar en að sögn Ólafs virðast fyrirtæki og lánastofnanir fylgjast vel með mælingunni og jafnvel breyta verðskrám sínum ef þær eru að valda því að samanburður er þeim ekki í hag. „Aurbjörg er að auka gegnsæið á markaði, og almenningur er í æ meira mæli að nýta sér þjónustu eins og okkar til að gera samanburð og spara sér háar fjárhæðir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál