Að finna bestu leiðina

mbl.is/Hari

Þær Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent, og Hlín Helga Guðlaugsdóttir hönnuður hafa vakið athygli víða með nýrri leið til stefnumótunar sem kallast Design Thinking. Þær halda námskeið á vegum Opna háskólans um þessa aðferð. Hér verður fjallað um námskeiðið, aðferðina, fjórðu iðnbyltinguna og mikilvægi skapandi hugsunar á þeim tímum sem við lifum á.

Við erum í miðri iðnbyltingu þar sem megináhersla er lögð á hönnun og nýsköpun. Hvernig geta fyrirtæki nýtt sér námskeið ykkar og beitt tækni hönnunar í stefnumótun? „Stafræn þróun er ein helsta áskorun sem fyrirtæki og stofnanir hafa staðið frammi fyrir í áratugi. Það er grundvallarmisskilningur að þessar áskoranir séu eingöngu tæknilegs eðlis. Helstu áskoranirnar felast í því að skilja þarfir, óskir og væntingar notenda í breyttu umhverfi – og hafa hugrekki til þess að gera róttækar breytingar. Það er erfitt að nota gömlu aðferðirnar til að leysa þessar nýju áður óþekktu áskoranir.

Design thinking-aðferðafræðin setur einmitt notendur í forgrunn, en samkennd með notendum, viðskiptavinum og starfsfólki er eitt sterkasta einkenni aðferðafræðinnar. Því miður er auðvelt fyrir fyrirtæki að missa sjónar á því hverjum þau vilja þjóna. Það að setja sig raunverulega í spor viðskiptavina, er eina leiðin til að lifa af í harðri samkeppni. Nýsköpunarhugsun er einnig samofin Design thinking, við leyfum okkur að hugsa allt upp á nýtt.“

Stöðug nýsköpun og þróun

Hverskonar fyrirtæki og fólk sækir námskeiðið ykkar?

„Það er mjög fjölbreyttur hópur fólks, bæði úr opinbera geiranum, einkageiranum „ og úr þriðja geiranum. Það sem þau eiga þó öll sameiginlegt er að vera aflvakar breytinga, þora að skoða nýjar leiðir.“

Hvað mælið þið með að fyrirtæki fari oft í stefnumótun?

„Það er úr sögunni að fyrirtæki geti horft til stefnumótunar á 7 til 10 ára fresti, það er miklu nær á tveggja ára fresti en markmiðið er að aðferðafræði Design thinking verði hluti af DNA fyrirtækisins – þannig að stöðug nýsköpun og þróun eigi sér stað í daglegu starfi.“

Getið þið nefnt dæmi um fyrirtæki eða aðila sem nota Design Thinking í stefnumótun?

„Mörg alþjóðlega þekkt fyrirtæki eru farin að tileinka sér þessa aðferðafræði, þar má nefna fyrirtæki eins og Airbnb, Pepsi, P&G, Spotify, Philips, Deutsche Bank og fleiri. En það eru ekki eingöngu fyrirtæki sem nýta sér aðferðafræði Design Thinking, stofnanir, sveitarfélög og góðgerðarsamtök hafa einnig nýtt sér aðferðafræðina með góðum árangri. Mayo Clinic-sjúkrahúsið í Bandaríkjunum hefur til dæmis notað Design thinking til þess að bæta þjónustu og upplifun sjúklinga og til að efla nýsköpun.“

Að sprengja upp hið hefðbundna mengi

Getið þið útskýrt hvernig Design Thinking-stefnumótun í mjög hefðbundnu fyrirtæki gengur fyrir sig?

„Gríðarlega mikilvægur þáttur í því að fara fram úr væntingum viðskiptavina er að byggja ekki á því gamla, festast ekki í viðjum vanans heldur finna hvaða leið er best út frá þörfum viðskiptavina eða notanda þjónustunnar.

Í Design thinking-aðferðafræðinni er lögð áhersla á að skilgreina upplifunarferðalag viðskiptavinar, horfa til sársaukapunkta sérstaklega og hvernig megi stytta ferðalagið. Ferðalagið er greint lið fyrir lið þar sem við skoðum líðan, upplifun, ferli og helstu vörður. Til þess að efla nýsköpun og hámarka árangur í breytingaverkefnum er nálgunin heildræn og unnin í þverfaglegum teymum, sem segja má að sé kjarninn í aðferðarfræði Design Thinking. Þar er leitast við að sprengja upp hið hefðbundna mengi í fyrirtækjum og stofnunum sem verða annars oft afar einsleitar. Þverfagleg teymisvinna leysir úr læðingi nýja hugsun; við fáum fram ólík sjónarhorn og nýja sýn á gömul vandamál sem skilar miklum ávinningi, betri rekstri og hlúir að skapandi hugsun.“

Margar iðngreinar eiga undir högg að sækja vegna iðnbyltingarinnar, sem dæmi munu mörg störf sjálfvirknivæðast. Hvernig getum við með aðstoð Design Thinking aðstoðað fólk við að finna sér nýjan stað í þessum breytingum?

„Í skýrslunni The Future of Jobs sem gefin var út af WEF er spáð fyrir um hvaða störf, mannaflaþörf og hæfni þarf árið 2020. Þar raðast í efstu sætin skapandi hugsun, lausn flókinna vandamála og gagnrýnin hugsun. Þetta eru allt þættir sem gervigreindin hefur ekki náð tökum á og einkenna einnig Design Thinking-aðferðafræðina. Það er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að þjálfa þessa hæfni sem við flest búum yfir en höfum tapað niður mismikið á lífsleiðinni.“

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur fyrirtækjarekstur á Íslandi á næstu árum?

„Það eru að verða til ný viðskiptamódel, við erum farin að sjá allt annað umhverfi en áður. Airbnb, stærsta hótelkeðja í heimi á ekkert hótel, Uber, stærsta leigubílafyrirtæki í heimi á ekki einn leigubíl og Facebook sem er stærsta fréttaveita í heimi framleiðir ekkert efni – sem dæmi. Óhjákvæmilega er þetta að gerast á Íslandi líka, við sjáum fyrirtæki vera að stinga sér inn í virðiskeðju þessara hefðbundnu fyrirtækja og bjóða betri þjónustu, sjálfvirkni og skilvirkni. Stóru fyrirtækin eru viðkvæmari fyrir þessu þar sem þau hreyfa sig hægar og eru því seinni til að bregðast við breyttu umhverfi. Gott dæmi eru bankarnir sem eiga undir högg að sækja frá Fintech-fyrirtækjum sem eru einmitt að gera þetta. Einhverjir bankar hafa valið að vinna með þeim í staðinn fyrir að reyna að keppa við þau og verða þá einskonar vettvangur fyrir þjónustuveitingu á milli viðskiptavina og ýmissa minni fyrirtækja – stefna þá á að halda eingöngu í sína kjarnaþjónustu.“

Breytt neysluhegðun og væntingar viðskiptavina

Eru íslensk fyrirtæki að breytast í takt við þá tækniþróun sem við sjáum í heiminum?

„Auðvitað eru einhver íslensk fyrirtæki að gera það, en öll fyrirtæki finna mjög fyrir þeirri áskorun sem fylgir því að færa sig inn í stafræna umhverfið. En því miður eru allt of mörg sem halda enn að þetta snúist eingöngu um að fylgjast með nýjustu tækni, en það er aðeins einn af mörgum þáttum sem þarf að huga að. Fyrst og fremst skiptir máli að gera sér grein fyrir þeirri áskorun sem fylgir breyttri neysluhegðun og væntingum viðskiptavina sem fylgja þessari þróun. Þar nýtist aðferðafræði Design Thinking sérstaklega vel en einnig þegar kemur að því að þróa breytingarverkefni til þess að aðlaga sig nýjum veruleika. Þá er mikilvægt að vinna í þverfaglegum teymum og tryggja að fá fulltrúa allra þeirra sem á einhvern hátt koma að þjónustuveitingunni, beint eða óbeint að borðinu. Það þarf yfirleitt að hugsa hlutina alveg upp á nýtt, þora að fara út fyrir þægindarammann til þess að ná árangri.“

Fjárfesting sem skilar sér fjórfalt til baka

Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er mikil áhersla á nýsköpun, og þá hlýtur stjórnsýslan að ætla að tileinka sér skapandi hugsun. Hvernig gæti Design thinking virkað þar?

„Það væri nærtækt að horfa til þeirra landa sem hafa verið framarlega í að innleiða aðferðafræði Design thinking í stjórnsýslu, til dæmis Bretland, Danmörk og Finnland. Í Bretlandi hefur t.d. lengi starfað Design council, sem var stofnað 1944 af Winston Churchill sem er einskonar tenging milli hönnunargeirans, hins opinbera og einkageirans, mikill ávinningur af samstarfi skapandi greina við stjórnsýsluna og hafa mælingar sýnt að ávinningur hvers punds sem fer í að fjárfesta í hönnun getur skilað sér fjórfalt til baka í hagnaði.“

En í skólum landsins?

„Alþjóðlega eru dæmi þess að hönnunarfyrirtæki hafi á síðustu árum unnið verkefni með skólum á ýmsum skólastigum þar sem Design thinking hefur verið beitt bæði til að endurhanna uppbyggingu náms og sem aðferð í kennslu og samskiptum. Samkvæmt vinnumálastofnun Bandaríkjanna eru 60% af þeim störfum sem grunnskólabörn í dag munu sinna í framtíðinni – ekki til í dag. Það er því auðvitað mikilvægt að búa börnin okkar undir þessa breyttu heimsmynd, að virkja þessa hæfni sem lögð er áhersla á í skýrslu WEF um framtíð starfa. Við verðum að leggja áherslu á skapandi hugsun sem og gagnrýna hugsun og lausn flókinna vandamála. Þá þarf skólastarfið að endurspegla m.a. að kenna þeim að vinna þverfaglega. Spurningin er svo hvort skólakerfi okkar endurspegli það?“

elinros@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál