Vaknar klukkan sex til að nýta tímann

Rakel Sveinsdóttir, formaður FKA.
Rakel Sveinsdóttir, formaður FKA.

Rakel Sveinsdóttir er nýr formaður FKA, félags kvenna í atvinnulífinu. Rakel hefur komið víða við á ferli sínum. Hún hóf sinn starfsferil á Morgunblaðinu en þar starfaði hún sem blaðamaður frá 23 ára til þrítugs. Hún segir að það hafi verið góður skóli. Rakel segist vakna klukkan sex á vinnudögum til að nýta tímann sem best. Ég byrja á að spyrja hana hvernig formaður FKA hún ætli að vera og auðvitað um ýmislegt fleira. 

„Ég ætla að verða mjög öflugur formaður enda samanstendur FKA af ríflega eitt þúsund afrekskonum sem allt eru leiðtogar á sínu sviði í atvinnulífinu. Eðlilega eru því gerðar kröfur til formanns, sem fela meðal annars í sér mjög virka þátttöku í félagsstarfi, í stefnumótandi verkefnum og sýnileika,“ segir Rakel.  

Hvers vegna sóttist þú eftir þessu starfi?

„Að fara í kosningabaráttu til formanns var góð reynsla og mér fannst ég tilbúin í það eftir að hafa starfað í félaginu síðastliðin 8 ár. Á þessum tíma hafði ég verið svo heppin að leiða nokkur af stærri verkefnum FKA, hafði setið í stjórn í 2 ár, verið virk í starfi nefnda og deilda og upplifað af eigin raun hversu öflugt félagið er orðið, ekki síst sem hreyfiafl. Að styðja við leiðtogakonur í atvinnulífinu, samhliða því að stuðla að auknum fjölbreytileika í atvinnulífinu eru því verðug verkefni sem eru án efa samfélaginu öllu til heilla. Ég nefni sem dæmi fjölmiðlaverkefnið okkar sem gengur út á að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum, eða Jafnvægisvogina sem við munum kynna betur næsta haust og mun stuðla að því að auka hlutdeild kvenna í efra lagi stjórnenda fyrirtækja. Síðan tilheyri ég sjálf FKA Suðurlandi, sem hefur gefið mér innsýn í það hversu mikilvægt það er að efla starf landsbyggðardeilda FKA.“

Hvað skiptir máli fyrir FKA-konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Að hafa trú á sjálfri sér og vera frakkar að láta vita af sér þegar þess þarf.“

Hvernig var þinn ferill? 

„Ég hef lengst af starfað við fjölmiðla og kannski má segja að Morgunblaðsárin mín frá tuttugu og þriggja ára til þrítugs hafi mótað mig mikið. Í beinu framhaldi af Mogganum fór ég til Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Þá var Hreggviður Jónsson forstjóri þar og það var mjög lærdómsríkt að koma frá hinu rótgróna umhverfi Morgunblaðsins og starfa í stjórnendateymi Hreggviðs, sem þá var frekar nýlega útskrifaður frá Harvard í Bandaríkjunum. Ég var síðan framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi í nokkur ár, en stofnaði síðan nýsköpunarfyrirtækið Spyr fyrir nokkrum árum síðan og rak sjónvarpsstöðina Hringbraut til skamms tíma. Síðan hef ég verið í stjórnarsetu, t.d. Viðskiptaráðs og FKA, verið ráðgjafi nýsköpunarsjóða hér heima og erlendis, verið í kjörnefnd SVÞ og fleira. Allt safnast þetta saman í einn góðan reynslubanka sem vonandi nýtist út ævina.“

Fannst þér þú upplifa á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum þínum?

„Nei, það fylgir því ákveðinn galli að vera með mikið keppnisskap því í raun finnst manni maður alltaf geta gert meira og betur. En ég held samt að að fertugsafmælið mitt hafi verið ákveðinn vendipunktur. Þá var ég búin að kynnast mörgum FKA-konum og hafði því fjöldann allan af fyrirmyndum sem höfðu fylgt eftir sínum draumum. Ég tók því ákvörðun um að segja upp hjá Creditinfo og starfa eingöngu fyrir mig sjálfa eða að mínum draumum eftir það. Það tók mig reyndar tæpt ár að hætta því ég samþykkti að framlengja samninginn í nokkur skipti. Í kjölfarið stofnaði ég Spyr, vatt mér enn lengra inn í fjölmiðlaumhverfið og nú síðast í formennskuna hjá FKA. Ég mun áfram beina sjónum mínum að fjölmiðlaumhverfinu og tengdum rekstri, en að vita hvað maður vill og beina sjónum sínum þangað sem styrkleikarnir liggja er ákveðið markmið út af fyrir sig. Þar er ég fullkomlega sátt við sjálfa mig.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinnu fylgja alltaf áskoranir og það að takast á við áskoranir styrkir mann.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já, ég held reyndar að vinnuumhverfi nútímans bjóði vel upp á það en í dag er ég orðin meðvitaðri um góða hvíld á milli, til dæmis að njóta helganna. Eftir að við fjölskyldan fluttum úr bænum og á litla jörð fyrir austan fjall hef ég líka sannfærst um að í sveitinni næ ég meiri dýpt í hvíld og frístundum. Það er eitthvað sem náttúran og umhverfið gefur manni.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Já, því miður staðfestir tölfræðin það og þess vegna finnst mér svo mikilvægt að þegar við sjáum til dæmis fréttir um að yfir 90% fjármálageirans sé stýrt af körlum spyrjum við: Hverju er viðskiptalífið og samfélagið að missa af þegar mannauður kvenna í stjórnun mælist undir 10% í heilli atvinnugrein?“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Nafnalisti fyrirmynda minna í FKA er of langur til að nefna, enda held ég að fáir geri sér grein fyrir því hversu mikil dýnamík myndast oft á FKA-fundum og -viðburðum. Sjálf segi ég oft að ég nánast falli í trans þegar ég hlýði á FKA-konur eða viðurkenningarhafa. Sögurnar þeirra, reynslan, hvatningin og innblásturinn sem maður fær frá þessum konum er í raun eitthvað sem ég á erfitt með að koma í orð.“

Ertu með hugmynd um hvernig hægt er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Með markvissu átaki og aukinni vitund því þótt Jafnlaunavottunin sé á næsta leiti þarf meira til. Þannig þarf það að vera meðvitaður vilji til verka hjá stjórnendum og eigendum að eyða óútskýrðum launamun, sem reyndar getur oft verið mjög lúmskur og sést ekki alltaf við fyrsta samanburð. Ég nefni sem dæmi launamun sem felst í einhvers konar hlunnindum, yfirvinnugreiðslum eða sporslum. Það er þó ekki aðeins atvinnulífið sem þarf að fylgja þessum málum eftir því hið opinbera er langt frá því að hafa verið einhver fyrirmynd til þessa.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég er nokkuð gamaldags því að daglega skrifa ég verkefnalista sem ég stroka síðan yfir eða krota í yfir daginn. Daginn eftir hendi ég síðan því verkefnablaði og skrifa niður nýjan verkefnalista með verkefnum dagsins og eða athugasemdum um það sem ekki kláraðist daginn áður.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Á dæmigerðum vinnudegi vakna ég upp úr kl. 06.00 og finnst reyndar ágætt að vera búin að sinna einhverjum heimilisverkum eins og þvotti, áður en aðrir í fjölskyldunni vakna. Ef ég fer í röska göngu er það á morgnana. Síðan tekur við að vekja aðra fjölskyldumeðlimi og sjá til þess að allir nái út úr húsi á réttum tíma. Þegar börnin eru farin í skólann legg ég af stað í bæinn og nýti tímann vel í bílnum til að fara yfir verkefni dagsins. Að keyra í bæinn er því mín gæðastund.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld? 

„Nei, ég minnist þess ekki að hinn dæmigerði vinnudagur hafi einhvern tímann verið átta klukkustundir. Í mörg ár hefur það því oftast verið þannig að ég er að detta inn heima um eða upp úr kvöldmat. Hluti kvölds fer síðan í að vinna í tölvunni, svara tölvupóstum eða klára einhver verkefni. En þetta er meðvitað því ég legg í rauninni áherslu á stífa vinnuviku og afkastamikla en reyni að nýta tímann þeim mun betur með fjölskyldunni um helgar og heima fyrir. Undantekning frá þessu eru þó sunnudagsmorgnarnir. Þá finnst mér voða gott að vinna einhvern undirbúning fyrir vikuna með morgunkaffinu.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Langskemmtilegast finnst mér að vera í góðra vina hópi þar sem bæði er mikið hlegið og gantast, sem og rætt um þjóðfélagsmálin og fréttir. Ferðalög innanlands og utan eru auðvitað á listanum og síðan er ég hrað-bókaormur í fríum. Það þýðir að ég hamstra bækur oft í marga mánuði, fer síðan í tveggja vikna frí til útlanda og les 10-12 bækur á sólbekknum eins og ekkert sé.“

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

„Í sumar eru 30 ár síðan ég kom heim sem skiptinemi frá Bandaríkjunum og það merkilega er að stórfjölskyldan mín þaðan er að heimsækja mig í júní. Þessa dagana er ég því að skipuleggja 10 daga ævintýralega skemmtilegt frí með þeim og stend því í ströngum samningaviðræðum við veðurguðina fyrir tímabilið 16. – 26. júní.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál