Á tímabili var ekkert að ganga upp

Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir stýrir þættinum Framapot á RÚV ásamt Steineyju …
Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir stýrir þættinum Framapot á RÚV ásamt Steineyju Skúladóttur.

Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir stýrir þættinum Framapot ásamt vinkonu sinni Steineyju Skúladóttur. Þættirnir eru sýndir á RÚV og hafa vakið mikla athygli enda kunna þær vinkonur spyrja skemmtilegra og áhugaverðra spurninga. Þær gera þó meira en að búa til sjónvarpsþætti því þær eru saman í Reykjavíkurdætrum. 

Hvernig kviknaði hugmyndin að Framapoti?

„Hugmyndin kviknaði fyrir þremur árum. Við vorum að vinna saman á veitingastað og vorum óvissar hvað næsta skref okkar í lífinu yrði. Við höfðum á þessum tíma báðar prófað ýmis nám og farið í inntökupróf en einhvern veginn var ekkert að ganga upp hjá okkur. Með því að tala um krísuna sem við vorum í fundum við fyrir því hvað það var gott að finna að það væri einhver annar að díla við þetta stress. Í kjölfarið fórum við að hugsa út í það hvað það væru örugglega margir í sömu sporum og fengum hugmynd að sjónvarpsseríu,“ segir Sigurlaug. 

Hvernig unnuð þið þættina?

„Við vorum að þróa hugmyndina í þrjú ár svo í því fólst mikil vinna. Við funduðum reglulega með Saga Film og vorum stöðugt  að bæta við og breyta forminu. Við fengum já frá RÚV eftir tvö ár af hugmyndavinnu og þá vorum við með svo mikið í pottinum að við hófum hefðbundin handritaskrif með Arnóri Pálma í Saga Film í tæpa tvo mánuði. Þá skrifuðum við handrit, fundum viðmælendur og völdum úr öllu því efni sem við höfðum sankað að okkur yfir árin. Við vorum í tökum í tíu daga en það gekk virkilega vel þar sem við unnum með svo miklu fagfólki og höfðum sjálfar haft langan tíma til að undirbúa okkur.“

Nú kemur það fram í þættinum að þið vinkonurnar séuð að reyna að finna út úr því hvað þið viljið verða þegar þið verðið stórar. Ertu komin að einhverri niðurstöðu?

„Ég er komin með skýrari sýn á það. En í raun vissi ég alltaf sirka hvað mig langaði að gera. Ég bara skammaðist mín fyrir að segja það. Ég var ekki með nógu hátt sjálfstraust til þess að hafa trú á sjálfri mér. Eftir að hafa svo fengið hafnanir í leiklist missti ég dálítið trú á sjálfri mér á þessu sviði. Núna er ég komin í nám á sviðshöfundabraut sem var nám sem ég vissi ekki af til dæmis sem unglingur. Þetta nám hentar mér mun betur til dæmis en leikaranámið þar sem í því felst að þróa eigin hugmyndir og setja á svið eða gera að verki. Það þýðir ekki að ég hafi ekki trú á mér á sviði leiklistar, ég bara finn að þetta hentar mér mun betur. Ég er líka að komast að því að lífið er ekkert endilega eitt ferðalag að einhverju einu starfi eða endapunkti heldur er eins og það skiptist í tímabil. Núna er ég á þessu tímabili í mínu lífi og mjög sátt. Kannski fer ég svo í mastersnám en ég er ekki viss enn þá í hverju. Ég þarf bara að leyfa mér að vera í núinu.“

Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir.
Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir.

Nú eru mörg ungmenni peningadrifin og fara þess vegna í lögfræði eða viðskiptafræði. Ert þú peningadrifin?

„Því miður er óhjákvæmilegur þáttur af lífinu að hugsa út í peninga því einhvern veginn þarf maður til dæmis að hafa efni á leigunni. Hvað þá reyna að kaupa íbúð í framtíðinni? Hins vegar langar mig ekki að láta stjórnast algjörlega af peningum. Ástríða skiptir mig öllu máli og að gera eitthvað sem ég er góð í eða hef áhuga á til að halda geðheilsunni. Ég veit mér liði ekkert betur ef ég ætti helling af peningum en væri að gera eitthvað sem ég hataði. En jú, peningar þurfa víst að skipta einhverju máli. Það er partur af því að verða fullorðinn að fá fjárhagskvíða og pæla í því, ég er að reyna að finna balansinn.“

Hvað finnst þér skipta máli í lífinu?

„Fjölskyldan mín og vinirnir. Ég er umkringd svo góðu fólki og það er ástæðan fyrir því að ég fúnkera sem manneskja. Ég hef alltaf unnið mjög mikið en til þess að líða vel verð ég að muna eftir fólkinu í kringum mig. Mér finnst líka skipta máli að tala um hluti við vini sína, deila öllu því skemmtilega en líka erfiðleikunum. Finna að maður er ekki einn að glíma við krísur og erfiðleika. Þá verður allt svo miklu auðveldara að leysa úr.“

Í fyrsta þættinum fenguð þið foreldra ykkar í settið. Voru þau strax til í þetta? Vissu þau um hvað þau yrðu spurð?

„Við settum foreldra okkar í erfiða stöðu því þau eiginlega gátu ekki sagt nei. Fyrsta skiptið mitt í sjónvarpi og ég bið þau að koma í viðtal. Foreldrar mínir myndu gera allt fyrir mig svo jú þau samþykktu. Það var alveg smá tregi eða stress en þau voru til. Þau vissu ekki að hverju við myndum spyrja þau nákvæmlega, nei. Þau vissu bara að við ætluðum að spyrja eitthvað út í okkur sjálfar.“

Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir ásamt ömmu sinni Sigríði Þorvaldsdóttur.
Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir ásamt ömmu sinni Sigríði Þorvaldsdóttur. mbl.is/Stella Andrea

Nú virðist þú vera mjög opin og getur sagt allt sem þér dettur í hug. Hefur þú alltaf verið þannig eða hefur þú þurft að þjálfa þetta upp?

„Ég var svo feimin í grunnskóla að ég gekk um í rúllukragabol með kragann fyrir munninum því ég þorði ekki að tala. Ég var vinamörg en þegar það kom að því að til dæmis lesa ljóð eða slíkt fór ég alveg í kleinu. Ég þorði aldrei að rétta upp hönd og spyrja spurning því ég var svo hrædd um að hafa rangt fyrir mér. Ég tók síðan meðvitaða ákvörðun sem unglingur að hætta að vera feimin. Það tók tíma að opna mig en ég er alveg stundum feimin enn þá. Ég til dæmis ritskoða sjálfa mig oft allt of mikið og er að æfa mig í því að hætta því.Þetta er spurning um að hætta að hugsa um álit annarra, það verkefni er bara ævilangt sem ég er að vinna í.“ 

Hvað drífur þig áfram í lífinu?

„Ég myndi segja að mitt helsta afrek í lífinu er að hafa eignast svona ótrúlega mikið af góðum og flottum vinum sem drífa mig áfram daglega. Svo er ég svo heppin með skemmtilega fjölskyldu að ég get varla byrjað að lýsa yfir þakklæti fyrir þau og þeirra stuðning. Það skiptir mig máli að vera að gera hluti sem mér þykja skemmtilegir, krefjandi og áhugaverðir en ég væri ekkert án fólksins í kringum mig.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?

„Ég fer mikið í leikhús og hef gaman af því að fara á tónleika, í sund og borða góðan mat, elska það. Ég var að æfa skíði sem barn svo mér finnst mjög gaman að fara upp í fjall og langar að vera duglegri í útivist hér heima því það er svo nærandi. Ég hef verið að æfa mig í því að gera skemmtilega hluti því ég hef í gegnum tíðina mjög mikið verið að vinna og ekki verið nógu dugleg að gera hluti fyrir sjálfa mig.“ 

Hvernig sérðu þig fyrir þér eftir tíu ár?

„Ég vona að ég verði áfram að vinna í sjálfri mér og að gera hluti sem mér þykir skemmtilegir.  Umkringd góðu fólki. Ég vil ekki staðna.  Ég vil halda áfram að pæla í samfélaginu og minni stöðu innan þess. Ég vil njóta og láta gott af mér leiða með einhverjum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál