mið. 8. okt. 2025 18:57
Palestínumenn og aðrir þeim hliðhollir mótmæla blóðbaðinu á Gasa í New York í gær. Tugir þúsunda óbreyttra borgara hafa fallið í valinn á tveimur árum.
Vænta undirritunar vegna Gasa að morgni

Milligöngumenn í viðsjám Ísraela og Hamas-samtakanna palestínsku gera því skóna að friðarsamkomulag um Gasasvæðið verði undirritað á morgun, fimmtudag, í kjölfar tveggja ára blóðbaðs sem hófst með innrás Hamas í Ísrael 7. október 2023.

Verði af undirritun sleppa Hamas-samtökin þeim ísraelsku gíslum sem þau enn hafa í haldi – lífs sem liðnum – og þiggja í staðinn vopnahlé af hálfu Ísraelshers. Þetta hefur The Times of Israel eftir arabískum sendierindreka sem veit hvað klukkan slær í friðarviðræðunum.

Náist samkomulagið mun Hamas-liðum verða kleift að safna líkum ísraelskra gísla saman til afhendingar en af þeim 48 gíslum, sem enn eru á Gasasvæðinu, eru aðeins 20 taldir á lífi.

Við undirritun samninga, verði af henni, telst fyrsta lið af 20 í ítarlegri friðaráætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta fyrir Gasasvæðið lokið.

Sleppi palestínskum föngum

Ísraelskir embættismenn telja að fallast megi á friðarsamkomulag þeirra megin á 24 til 36 klukkustundum eftir undirritun og segir Amit Segal, stjórnmálagreinandi hjá ísraelsku sjónvarpsstöðinni N12 News, að samningahljóð hafi heyrst frá þarlendum embættismönnum í kjölfar þess er Hamas-samtökin létu í té upplýsingar um þá 20 gísla sem enn er talið að séu hérna megin grafar.

Segir Segal að Ísraelar skuldbindi sig til að sleppa palestínskum föngum úr haldi þegar þeir hljóti staðfestingu þess frá Hamas hvaða ísraelsku gíslar lifi enn.

Lætur greinandinn þess að lokum getið að ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra hafi þegar hafist handa við samningu tilboðs sem senn verði borið undir atkvæði.

The Times of Israel

Sky News

til baka