Þriggja metra hátt víðitré rifnaði upp með rótum og lenti á glugga á Melhaga í Vesturbæ Reykjavíkur í dag.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir fyrrverandi þingmaður vissi ekki alveg hvernig hún ætti að snúa sér þegar vindhviða reif stærðarinnar gulvíði upp með rótum í garði hennar en tréð, sem er nokkuð mikið um sig, lenti á glugga í húsinu.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/08/klaedning_fauk_naestum_thvi_af_fimmtu_haed/
Söguðu tréð niður
Rósa segir í samtali við mbl.is að til allrar hamingju hafi glugginn ekki gefið sig. Hún hafi brugðið á það ráð að kalla á liðsauka en Heimir vinur hennar sé kirkjugarðsvörður í Hólavallakirkjugarði og hann getað stokkið til og aðstoðað.
Þau hafi sagað tréð niður til að losa það frá glugganum og næsta mál á dagskrá sé svo að koma því í Sorpu.
„Ég hvet alla til að huga að trjám sínum hér í Vesturbænum,“ segir Rósa úr rokinu í Melhaga.
Hávaðarok er í Vesturbænum og gul viðvörun vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu til klukkan 22 í kvöld. Vindhraði hefur verið 13-20 metrar á sekúndu og með snörpum vindhviðum, hvassast vestast.
Veðurstofan hvetur fólk til að tryggja lausamuni utandyra til að forðast foktjón. Þá er spáð hárri ölduhæð og talsverðum áhlaðanda. Þar sem einnig er stórstreymt geti sjór gengið á land og valdið staðbundnu tjóni.