mið. 8. okt. 2025 18:10
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra.
Hefur áhyggjur af stöðu ungs fólks

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri segist hafa áhyggjur af stöðu ungs fólks sem hafi undanfarin ár ekki komist inn á fasteignamarkaðinn. Þær sveiflur sem hafa orðið á milli kynslóða segir hann mjög óheppilegar á sama tíma og hann gagnrýnir skort á íbúðum sem passa fyrstu kaupendum.

Í viðleitni sinni til að ná niður verðbólgu, sem nú stendur í rúmlega 4%, hefur Seðlabankinn í um þrjú ár sett háa stýrivexti og gripið til aðgerða til að draga úr spennu á húsnæðismarkaði með reglum um greiðslubyrgðahlutfall. Hefur þetta komið hvað verst við fyrstu kaupendur og hefur meirihluti þeirra ekki tök á að kaupa íbúð í því hávaxtaumhverfi sem nú er og með fyrrnefndum skilyrðum.

Óheppilegt þegar skilyrðin sveiflast mikið á milli kynslóða

„Ég verð að segja að ég hef miklar áhyggjur af þessu vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir þjóðfélagið okkar að ungt fólk geti eignast sitt eigið heimili. Það er mjög óheppilegt þegar skilyrði til fasteignakaupa sveiflast mikið á milli kynslóða sem hefur gerst núna,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is eftir fund peningastefnunefndar í dag.

Hann tekur fram að þó að Seðlabankinn sé almennt á móti ríkisaðgerðum sem hvetji áfram eftirspurn á fasteignamarkaðinum þá hafi hann skilning á því ef ríkisstjórnin beiti sér sérstaklega fyrir hópum sem þessum.

Ekki eignir í réttri stærð eða verðflokki

Hann tekur þó fram að fleiri þættir spili inn í erfiðleika fyrstu kaupenda en ákvarðanir Seðlabankans. Þannig sé skortur á framboði á eignum fyrir fyrstu kaupendur. „Það er nóg af eignum, bæði nýjum og notuðum til sölu „en þetta eru ekki eignir, hvorki verðlagaðar né af þeirri stærð sem hentar fyrstu kaupendum,“ segir Ásgeir.

Kristrún Frostadóttir hefur boðað að húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar sé væntanlegur í þessum mánuði, en ekki er ljóst hvað hann muni fela í sér og hvort hann muni valda aukinni þenslu fyrir hagkerfið.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/07/styttist_i_nyjan_pakka_akvedin_jafnvaegislist/

Spurður út í það hvort ríkispakki á húsnæðismarkaðinum sé eitthvað sem Seðlabankinn líti jákvæðum eða neikvæðum augum segir Ásgeir það vera breytilegt. „Svona já og nei. Það fer eftir því hvernig á það er litið. Ég vil fyrst segja það að peningastefna hefur sínar takmarkanir og er í rauninni skammtímatæki sem við höfum. Hún gengur út á að stilla saman eftirspurn og framboð. Peningastefna getur aldrei komið í staðinn fyrir langtímastefnu á fasteignamarkaði sem byggir á að tengja framboð á eignum og hópa af fólki sem á að kaupa þær.“

Hann segist hins vegar fagna því ef móta á stefnu til lengri tíma en tekur fram að tímasetningar fyrir aðgerðir sem þessar skipti máli.

„Auðvitað höfum við skilning á þeim vanda sem er til staðar. Fólk ræður ekki hvenær það fæðist og hvenær það kemst á þann aldur að það vilji stofna sitt eigið heimili. Auðvitað er það óheppilegt að aðstæður til fasteignakaupa skuli sveiflast svona mikið,“ segir hann að lokum.

til baka