„Það er forgangsmál, bæði út af umferðarþunga og einnig öryggismálum, að koma á þessari umferðartengingu. Hún ætti að vera komin fyrir löngu og á að vera í algerum forgangi. Vandinn er samt sá að það er eingöngu verið að vinna með hugmyndir frá árinu 1997 þegar gerð Sundabrautarinnar var lofað. Það ár vorum við 260 þúsund og hverfi borgarinnar eins og Norðlingaholt, Grafarholt og Úlfarsárdalur voru þá ekki til og umferðin með allt öðrum hætti en nú er.“
Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.
Hann var frummælandi, ásamt Diljá Mist Einarsdóttur alþingismanni Sjálfstæðisflokksins, á fjölmennum íbúafundi sem haldinn var í Grafarvogi fyrir skemmstu þar sem fyrirhuguð Sundabraut og málefni henni tengd voru til umræðu. Segir Guðlaugur Þór að íbúar í Grafarvogshverfi hafi þungar áhyggjur af því hvaða áhrif Sundabraut muni hafa á hverfið. Íbúa í Vogahverfi segir hann sömuleiðis áhyggjufulla, en Sundabrúnni sem liggja á yfir Kleppsvík er ætlað að koma þar að landi.
Áhyggjur af útfærslunni
„Viðbrögð fólks í þessum hverfum við Sundabraut eins og hún er hugsuð nú hafa verið mjög neikvæð. Það vilja þó allir tenginguna en margir hafa áhyggjur af útfærslunni,“ segir hann.
Sundabrautin muni gjörbreyta Grafarvogshverfi, í raun klippa hverfið í sundur. Þá sé fólk í hverfinu einnig mjög uggandi yfir skerðingu á grænum svæðum með þéttingu byggðar og að ekki sé talað um þá firringu sem virðist vera í skipulagsmálum á Keldnaholti.
Vandræði blasa við
„Það er augljóst þegar áformin um Sundabraut eru skoðuð að ýmis vandræði blasa við og ýmsar spurningar vakna sem menn þurfa að svara. Í fyrsta lagi er Sæbrautin algerlega yfirfull núna og ekki gert ráð fyrir aukinni umferðarrýmd á henni,“ segir Guðlaugur Þór, en ljóst er að hans mati að Sæbrautin sé ekki í stakk búin til að taka við aukinni umferð frá Sundabraut.
Stór verkefni tala ekki saman
„Það er líka með ólíkindum að tvö langstærstu samgönguverkefni Íslandssögunnar, Sundabrautin og verkefnin sem heyra undir samgöngusáttmálann, tali ekki saman. Það liggur sömuleiðis fyrir að ef menn ætla að ganga fram eins og ætlunin virðist vera núna mun það stórskaða byggingarlandið á Geldinganesi, sem er besta byggingarland í landinu og ætti fyrir löngu að vera byggt. Sundabrautinni er sömuleiðis ætlað að liggja í gegnum hið svokallaða bíllausa hverfi í Grafarvogi, en ljóst er að fólk verður ekki hrifið af því. Þá mun Sundabrautin skerða umhverfið og útsýnið í Staðahverfi, Engjahverfi, Víkurhverfi, Rimahverfi, Borgahverfi og Hamrahvefi í Grafarvogi,“ segir Guðlaugur Þór.
„Einnig verður ómögulegt fyrir íbúa Mosfellsbæjar, Úlfarsárdals og Grafarholts að komast inn á Sundabraut, nema þá að samgöngur verði bættar í gegnum Grafarvogshverfið, en því hefur reyndar verið lofað að það verði ekki gert. Þetta fer því ekki saman. Ef koma á umferðinni úr Mosfellsbæ og Grafarvogshverfunum á Sundabraut, sem er nauðsynlegt, þá verða menn að gera ráðstafanir. Þetta eru spurningar sem menn þurfa að svara,“ segir hann og nefnir að kallað hafi verið eftir svörum um fyrrgreind mál í mörg ár, en engu verið svarað enn.
Sundagöng verði skoðuð í stað Sundabrautar
Guðlaugur Þór segir eðlilegt að skoðað verði að grafa Sundagöng í stað Sundabrúar. Slík göng yrðu álíka löng og Hvalfjarðargöng, en ef gerðar yrðu tengingar yfir í Grafarvog og Mosfellsbæ yrði lengdin á að giska fjórföld Hvalfjarðargöng.
„Við borguðum Hvalfjarðargöngin sem við byggðum árið 1998 upp á mun skemmri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir. Og fyrst þau göng voru arðbær þá hljóta Sundagöng að verða arðbær líka,“ segir Guðlaugur Þór.