fim. 18. sept. 2025 15:31
Frá skóflustungunni í dag.
Sex ný hús rísa við miðbæinn á Selfossi

Stjórn félags eldri borgara tók í dag fyrstu skóflustunguna að fimm þúsund fermetra uppbyggingu við miðbæinn á Selfossi.

Um er að ræða sex ný hús við Miðstræti, nýja götu sunnan við núverandi miðbæ, sem þverar Brúarstræti og liggur frá austri til vesturs. Í húsunum verða 27 íbúðir á efri hæðum og verslunar- og þjónusturými á jarðhæð, auk bílakjallara. Þetta er stór áfangi í stækkun nýja miðbæjarins á Selfossi en áætluð verklok eru um mitt ár 2027, að því er segir í tilkynningu.

 

„Við erum afar spennt fyrir þessum áfanga enda er hann fyrsta skrefið í frekari uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi. Nýi miðbærinn hefur sannað gildi sitt með því að efla mannlíf og menningarstarf í bænum og skapað ný störf. Þetta gefur okkur fullt tilefni til bjartsýni um áframhaldandi uppbyggingu og þau tækifæri sem í henni felast,“ segir Leó Árnason, framkvæmdastjóri Landsbyggðar, í tilkynningunni.

 

Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, bætir við:

„Miðbærinn á Selfossi hefur á örfáum árum orðið hjarta samfélagsins okkar - staður þar sem fólk kemur saman, sækir þjónustu og nýtur lífsins. Áframhaldandi uppbygging er mikið gleðiefni fyrir íbúa, enda mikilvægt skref í þróun sveitarfélagsins og mun styrkja samfélagið til framtíðar,“ segir Bragi.

 

Hugmyndafræðin að baki miðbænum á Selfossi er að endurreisa horfin hús úr Íslandssögunni og skapa lifandi vettvang fyrir mannlíf og menningu. Þar má nú finna endurbyggð hús víðs vegar af landinu.

Í þessum áfanga eru öll húsin ættuð úr miðbæ Reykjavíkur. Húsin voru öll byggð um aldamótin 1900 og mörg þeirra brunnu til kaldra kola í brunanum mikla árið 1915.

til baka