fim. 18. sept. 2025 15:53
Ari Klængur Jónsson er einn af forsvarsmönnum lokaráðstefnu rannsóknarverkefnisins Áhrif stefnumótunar og foreldramenningar á barneignir á Íslandi sem fer fram í Norræna húsinu í dag og á morgun.
Menntaðar konur líklegri til að verða mæður

Miklar breytingar hafa orðið á frjósemi og barneignum hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Áður fyrr voru konur með minni menntun líklegastar til að eignast börn en það hefur nú breyst. Þetta segir Ari Klængur Jónsson, einn af forsvarsmönnum rannsóknarverkefnisins FIBI.

„Núna hefur þetta breyst,“ segir Ari. „Konur með hæstu menntun eru orðnar líklegastar til að verða mæður. Tímasetning spilar vissulega inn í en menntun er farin að ráða meira um barneignir en áður.“

Rannsóknin bendir einnig til þess að stór hluti karla eignist aldrei barn. „Það eru vísbendingar um að einn af hverjum fjórum körlum séu barnlausir við 46 ára aldur,“ segir Ari. Hlutfallið sé mun lægra meðal kvenna eða á bilinu 14–17%.

Aðspurður segir hann að slík þróun hafi samfélagslegar afleiðingar. „Til langs tíma þá þýðir það að náttúruleg fjölgun hættir. Þegar fleiri deyja heldur en að fæðast,“ útskýrir hann.

Stíga þarf varlega til jarðar

Þrátt fyrir þetta telur Ari að ástæða sé til að stíga varlega til jarðar. „Við þurfum alltaf að hafa í huga að við erum að skoða ákveðin tímabil. Þegar konur eru komnar úr barneign, um 49 ára aldur, hefur tíðnin verið nokkuð stöðug í kringum tvö börn á hverja konu. Það gæti því verið að þetta sé tímabundið ástand sem gangi til baka,“ segir hann og bendir á að fæðingarglugginn minnki eðlilega með aldri.

Lokaráðstefna rannsóknarverkefnisins Áhrif stefnumótunar og foreldramenningar á barneignir á Íslandi (e. FIBI – Fertility Intentions and Behaviour in Iceland) fer fram í Norræna húsinu í dag og á morgun undir yfirskriftinni „Fertility in flux: Childbearing Intentions and Behaviour in the Nordic countries.

Verkefnið hefur staðið yfir í þrjú ár undir stjórn Ara Klængs Jónssonar og Ásdísar A. Arnalds við Háskóla Íslands og Sunnu Símonardóttur við Háskólann á Akureyri.

til baka