fim. 18. sept. 2025 14:17
Mjög mismunandi er eftir framhaldsskólum hvort einhver kostnaður hefur farið í verkefni sem heyra undir það sem Snorri spurði um.
Þau fengu mest greitt frá ráðuneytinu og stofnunum

Ráðagjafafyrirtækið Goðhóll ráðgjöf ehf. er það fyrirtæki sem hefur fengið mest greitt frá mennta- og barnamálaráðuneytinu frá árinu 2017 til dagsins í dag vegna þjónustu, ráðgjafar og fræðslu sem útvistað hefur verið og tengist jafnréttismálum eða kynjafræði, eða rúmar 11 milljónir króna. Sigrún Garcia Thorarensen hefur fengið mest greitt allra einstaklinga frá ráðuneytinu, vegna verkefna sem heyra þar undir, eða rúmar 9 milljónir króna.

Frá árinu 2017 og til dagsins í dag hefur heildarkostnaður ráðuneytisins vegna þjónustu, ráðgjafar, stefnumótunar og fræðslu sem útvistað hefur verið og tengist jafnréttismálum og kynjafræði, verið rúmar 81 milljónir króna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í uppfærðu svari mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn Snorra Másonar, þingmanns Miðflokksins. Það vakti athygli fyrst þegar ráðherra svaraði fyrirspurn þingmannsins að ekki voru birt nöfn þeirra sem höfðu fengið greitt frá ráðuneytinu vegna verkefna eða þjónustu.

Vildi ráðherra meina að það bryti gegn persónuvernd, en í kjölfarið sendi Persónuvernd frá sér tilkynningu þar sem fram kom að persónuverndarsjónarmið stæðu ekki í vegi fyrir því að þessar upplýsingar væru birtar. Ráðherra uppfærði því svarið.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/17/snorri_bregst_vid_nyju_svari_radherra/

Mestur kostnaður í jafnlaunavottun

Goðhóll ráðgjöf hefur á síðastliðnum átta árum fengið greitt vegna þjónustu við jafnlaunakerfi og ráðgjöf vegna jafnlaunavottunar, eða rúmar 11 milljónir króna. Þar á eftir kemur fyrirtækið Versa vottun ehf. sem hefur fengið greitt um 9,4 milljónir króna, en fjöldi undirstofnana ráðuneytisins hefur nýtt sér þjónustu fyrirtækisins vegna jafnlaunavottunar.

Sigrún Garcia Thorarensen gegndi stöðu formanns fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum og fékk hún greiddar samtals rúmar níu milljónir króna fyrir þjónustu sem fagráðið veitti Menntamálastofnun á árunum 2018 til 2024. Aðrir meðlimir fagráðsins fengu einnig greitt, en þær upphæðir eru töluvert lægri.

Sólborg Guðbrandsdóttir, rithöfundur og aktivisti, hefur fengið næstmest einstaklinga greitt, en aðalskrifstofa ráðuneytisins greiddi henni rúmar 1,7  milljónir króna vegna skýrslugerðar árið 2021 og 1,2 milljónir króna fyrir þjónustu vegna EKKO málefna árið 2023. EKKO er skammstöfun fyrir einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi. Þá hafa nokkrir framhaldsskólar fengið hana sem fyrirlesara á þessu tímabili. Samtals hefur Sólborg fengið greiddar rúmar þrjár milljónir króna frá ráðuneytinu og undirstofnunum þess frá árinu 2017.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/09/rok_menntamalaradherra_halda_ekki_vatni/

Tveir vinsælustu fyrirlesararnir

Sólborg og Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur, sem hélt á tímabili út hlaðvarpinu Karlmennskan, eru þeir fyrirlesarar sem hafa fengið mest greitt frá frá ráðuneytinu. Þorsteinn hefur bæði veitt ráðuneytinu þjónustu vegna EKKO málefna og flutt fyrirlestra í nokkrum framhaldsskólum. Samtals hefur Þorsteinn fengið greiddar rúmar 1,5 milljónir króna frá ráðuneytinu á síðastliðnum átta árum.

Það er mjög mismunandi hve mikið framhaldsskólarnir hafa eytt í fyrirlestra tengda málefnum sem falla undir fyrirspurn Snorra, en Menntaskólinn í Kópavogi sker sig úr hvað varðar fjölda fyrirlesara og kostnað vegna þeirra.

Mest hafa þó útgjöldin verið hjá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ vegna jafnlaunavottunar á síðustu árum, en heildarkostnaðurinn á frá árinu 2019 til dagsins í dag eru rúmar fimm milljónir króna.

Segir hópinn pólitískt einsleitan

Í samtali við mbl.is í gær sagði Snorri Másson mjög margt forvitnilegt í svarinu og að það væri ljóst að tiltölulega pólitískt einsleitur hópur væri fenginn með ógegnsæjum hætti til þess að tala við nemendur í skólunum um sín pólitísku hugðarefni.

„Það sem vekur athygli mína er líka að sjá að fjöldi menntaskóla virðist ekki hafa neina þörf til þess að hafa aðkeypta hugmyndafræðilega þjónustu á þessu sviði á meðan aðrir verja fleiri milljónum í þessum tilgangi. Það er spurning hver tekur þær ákvarðanir og hver metur þá þörf,“ sagði Snorri í gær.

Þá minntist hann á jafnlaunavottunina. „Þarna sannast fyrir okkur að hið opinbera er búið að koma sér upp reglum sem gera fyrirtækjum úti í bæ kleift að ganga einfaldlega að traustum tekjum vísum frá hinu opinbera, fyrir jafnlaunavottunarþjónustu, sem er svo búið að sanna að breytir engu og hefur ekki áhrif á launamun kynjanna.

Það eina sem kerfið gerir er mögulega að hljóma vel í eyrum hugmyndafræðinga og svo flytja fé frá skattgreiðendum til vottunarskrifstofa sem spretta upp.“

Nákvæma sundurliðun á greiðslum ráðuneytisins og undirstofnana þess á tímabilinu má sjá í svari ráðherrans.

til baka