Nemendur Kirkjubæjarskóla upplifa að lítil kennsla hafi átt sér stað í skólanum síðasta haust. Skólaárið fór af stað án þess að skipulag og kennsluáætlanir væru til staðar, kennsla féll ítrekað niður og hvorki stundatöflur né námsgögn voru tiltæk. Þá vantaði upp á að skólahúsnæði og -lóð væru tilbúin til skólahalds.
Miklar hræringar voru í starfsmannahópnum. Nýráðnir kennarar sögðu upp eftir stutt stopp og skólastjórinn hætti um áramótin, eftir hálft ár í starfi.
Er það mat mennta- og barnamálaráðuneytisins að Skaftárhreppur, velferðarráð, og aðrir ábyrgðaraðilar skólahalds í Skaftárhreppi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um grunnskóla.
Þetta eru niðurstöður frumkvæðisúttektar ráðuneytisins með Kirkjubæjarskóla. mbl.is óskaði eftir skýrslunni í síðustu viku og hefur ráðuneytið nú birt hana.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/28/ur_milljonum_i_43_thusund_kronur/
Fengu ábendingar
Eins og fram hefur komið í umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is, um hvernig eftirlit með starfi íslenskra grunnskóla er í skötulíki, er Kirkjubæjarskóli eini skólinn sem menntamálaráðuneytið hefur sinnt eftirliti með á þessu ári.
Í aðdraganda úttektarinnar höfðu nokkur erindi borist ráðuneytinu þar sem áhyggjum var lýst af menntun barna og skólahaldi í Kirkjubæjarskóla.
Bent var á að skólinn réði ekki við að mæta þörfum nemenda, þeir hefðu ekki aðgang að viðeigandi námsefni, kennsla væri ófullnægjandi og ekki í samræmi við stundaskrá. Þá voru kennslustundir sagðar hafa fallið ítrekað niður.
Í úttektinni segir að við nánari skoðun á gögnum málsins hafi verið ljóst að úttektar væri þörf og að sveitarfélaginu hafi verið tilkynnt um það í maí.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/24/eftirlit_med_grunnskolum_i_skotuliki/
Starfsmannavelta mikil
Vorið 2024 var foreldrum tilkynnt að sameina ætti Kirkjubæjarskóla í leik- og grunnskóla. Breytingarnar tóku gildi um haustið.
Fyrri skólastjóri hætti vorið 2024 ásamt nokkrum kennurum og stuðningsfulltrúum, en starfsmannavelta er sögð hafa verið mikil undanfarin tvö skólaár.
Var verkefnastjóri ráðinn til að vinna að sameiningunni vorið 2024 og taka við sem skólastjóri skólaárið 2024/2025.
Nýir kennarar voru ráðnir inn um haustið en stoppuðu sumir stutt við. Skólastjórinn sem var nýtekinn við var ekki búsettur á Kirkjubæjarklaustri og hætti þegar skólaárið var hálfnað.
Kennslutími ekki í samræmi við grunnskólalög
Í úttektinni segir að „ýmis atvik“ hafi átt sér stað á milli kennara og nemenda, án þess að það sé tilgreint nánar.
Þá kemur fram að á fyrri hluta síðasta skólaárs hafi verið mikill „misbrestur“ á að kennslutími hvers nemanda væri samkvæmt lögum og aðalnámskrá. Kennslustundir hefðu ítrekað verið felldar niður og að skortur væri á starfsfólki.
„Kennsla var auk þess ómarkviss þar sem stundatöflur og kennsluáætlanir vantaði.“
Tekið er fram að þegar nýr skólastjóri tók við í upphafi árs hafi mörgu verið kippt í liðinn. Þá hafi stundatöflur fyrir alla námshópa verið unnar og vikulegur námstími verið í samræmi við viðmiðunarstundaskrá.
Þá er haft eftir skólastjóranum í úttektinni að skólinn hefði unnið að því að bæta nemendum í 1. - 6. bekk upp frávik haustannarinnar að hluta.
„Skólabragur í Kirkjubæjarskóla galt fyrir þvær sviptingar sem áttu sér stað og var að mati kennara, stuðningsfulltrúa, nemenda og foreldra slæmur framan af skólaárinu 2024-2025.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/29/tvitelja_daga_til_ad_na_skolaskyldu/
Nemendur sýna framfarir í lestri
Í úttektinni segir þó að með nýjum skólastjóra og kennurum sem hófu störf í byrjun árs hafi starfið tekið miklum og jákvæðum breytingum.
Frá haustinu hafi skólinn náð að ráða í allar stöður og unnið sé að umbætum á skólahúsnæði og útisvæði, bæði fyrir nemendur og starfsfólk.
Samskipti kennara og foreldra hafi batnað til muna frá síðasta hausti. Niðurstöður lesferils í maí sýni þá framfarir meðal nemenda í öllum árgöngum frá því í janúar.
Enn er þó ýmislegt ábótavant að mati ráðuneytisins.
Viðbrögð við skólareglum óljós
Í úttektinni segir að skólanámskrá og starfsáætlun skólans uppfylli ekki viðmið aðalnámskrár. Þannig er ekki gerð grein fyrir innra mati skólans, áætlunum um umbætur og þróunarstarf, samskiptum við framhaldsskóla, vali nemenda og áætlun um símenntun starfsfólks.
Auk þess eru síðustu kennsluáætlanir sem hafa verið birtar á vef skólans frá skólaárinu 2022-2023. Langt er síðan skólareglur voru endurskoðaðar og segir í úttektinni að mikill misbrestur sé á að þeim sé fylgt eftir.
Viðbrögð við brotum á skólareglum eru sögð óljós.
Nemendur hafa kvartað undan agavandamáli á unglingastigi, þar sem vinnufriður er sagður lítill. Hefur hamagangur í elstu nemendunum haft áhrif á þá sem eru á miðstigi.
Foreldrar hafa kallað eftir skýrara skipulagi á elsta stiginu og að viðbrögð kennara við agabrotum verði samræmd.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/24/skolar_standast_eftirlit_sem_aettu_ekki_ad_gera_tha/
Foreldraviðtöl féllu niður
Í könnun sem lögð var fyrir foreldra kom fram að þeir vilja meiri og tíðari upplýsingar um framfarir og árangur barna sinna í skólanum en um þriðjungur þeirra upplifir að þeir fái ekki slíkar upplýsingar.
Á síðasta skólaári féllu foreldraviðtöl að mestu niður og nýttu kennarar ekki Mentor sem skyldi til að upplýsa um námsframvindu barna.
Í könnuninni kom einnig fram að haustönnin hefði verið erfið fyrir börnin sem vildu ekki mæta í skólann.
„[K]ennsla hefði ekki verið sem skyldi, mikil agavandamál hefðu verið innan skólans og viðbrögðin við þeim lítil eða óviðeigandi og þáverandi skólastjóri hefði verið starfandi í öðrum skóla í Reykjavík samhliða skólastjórastarfinu í Kirkjubæjarskóla.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/05/litast_af_medvirkni_og_feluleik/
Styðja þurfi betur við nemendur og kennara
Sárlega vantar sérkennara í Kirkjubæjarskóla en í úttektinni segir að enginn sérkennari sé þar starfandi núna.
Voru skólastjóri, kennarar og hluti kennara jafnframt sammála um að nemendur sem þyrftu á sérstökum stuðningi að halda fengju hann ekki.
Kennarar töldu að bæði þyrfti að styðja betur við einstaka nemendur og kennara.
Sinntu ekki lögbundnum verkefnum
Í úttekt ráðuneytisins segir að ábendingar hafi komið fram um að sveitarstjórn Skaftárhrepps og velferðarráð þyrftu að halda betur utan um skólann og skólastarfið. Þá þótti sumum að illa hefði verið staðið að sameiningu skólanna og ráðningum á starfsfólki.
Er það niðurstaða ráðuneytisins að sveitarstjórn og velferðarráð hafi ekki verið nægilega virk í að sinna lögbundnum verkefnum sínum varðandi ábyrgð á heildarskipan skólahalds í Kirkjubæjarskóla.
Á það m.a. við um að tryggja að nemendur njóti náms og kennslu við hæfi, mati og eftirliti með skólastarfinu, stefnumótun um grunnskólahald og að tryggja samfellda og samþætta þjónustu grunnskólans.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/02/allt_i_skodun_eftir_fjogurra_ara_bid/