Sjávarútvegssýningin Sjávarútvegur/Iceland Fishing Expo 2025 verður haldin 10.-12. september í Laugardalshöll. Byrjað var að setja sýninguna upp í gær.
Er sýningin sú fjórða og jafnframt stærsta sem sýningafyrirtækið Ritsýn sf. stendur að.
Ólafur M. Jóhannesson framkvæmdastjóri segist finna fyrir miklum áhuga á sýningunni bæði hér innanlands og víða um heim:
„Sýningin stækkar með hverju árinu og fyllir nú öll sýningarsvæði Laugardalshallar,“ segir Ólafur.
Á sýningunni sé að finna allar tegundir fyrirtækja sem þjóna íslenskum sjávarútvegi. Gestir komi til með að sjá allt það nýjasta í hátækniútbúnaði er tengist fiskvinnslu og útgerð. Þá sé fjöldi af nýjum fyrirtækjum með sýningarbása, m.a. fyrirtæki sem þjóna fiskeldi.
Á síðustu sýningu, sem haldin var 2022, komu ríflega þrjátíu og fimm þúsund gestir. Sjávarútvegssýningin er opin frá kl. 14-19 á morgun, 10. september, og frá kl. 10-18 á fimmtudag og föstudag, 11. og 12. september.