Isavia hefur gert breytingar á starfsreglum hjá fyrirtækinu sem koma í veg fyrir að flugumferðarstjórar geti horft á knattspyrnuleiki eða annað efni meðan þeir eru á vakt í flugturni. Þetta kemur fram í svari innviðaráðherra við fyrirspurn frá Pawel Bartoszek en svarið hefur verið birt á vef Alþingis.
Fyrirspurn Pawels kemur í kjölfar alvarlegs flugatviks í febrúar í fyrra þegar litlu munaði að tvær flugvélar rækjust saman í nágrenni Reykjavíkurflugvallar. Flugumferðarstjórar á vakt voru að fylgjast með úrslitaleik í enska deildabikarnum í knattspyrnu þar sem Liverpool og Chelsea áttust við.
Í svari innviðaráðherra kemur fram að Isavia hafi gefið út verklagsreglu í janúar á þessu ári sem kveði á um ábyrga notkun miðla í vinnurýmum flugleiðsögu. Reglan er hluti af rekstrarhandbók Isavia og var samin í samráði við starfsmenn, trúnaðarmenn og öryggisnefnd fyrirtækisins með hliðsjón af atvikinu.
Engar skriflegar reglur
„Samkvæmt verklaginu er miðill skilgreindur sem raftæki þar sem efni sem ætlað er til afþreyingar er miðlað. Notkun slíkra miðla er óheimil í vinnustöð flugumferðarstjóra nema vaktstjórnandi veiti sérstaka undanþágu til notkunar. Þá er þátttaka í fundum úr vinnustöð óheimil samkvæmt verklaginu,“ segir í svarinu.
Pawel spurði jafnframt hvort sjónvarpsáhorf flugumferðarstjóra hefði verið í samræmi við þágildandi reglur. Í svarinu segir að engar skriflegar reglur hafi verið til hjá Isavia um notkun miðla í vinnurýmum fyrir flugleiðsöguþjónustu.
„Í svari frá Samgöngustofu, sem aflað var í tengslum við svar þetta, kemur fram að stofnunin telji að það ástand sem var til staðar í flugturninum þegar umrætt atvik átti sér stað hafi ekki verið í samræmi við þágildandi reglur. Bendir stofnunin á að þrátt fyrir að ekki hafi verið til skriflegt verklag um notkun miðla hjá Isavia ANS á þessum tíma hafi verið skjalfest í handbók Isavia ANS (MANOPS) mikilvægi þess að tryggja að starfsfólk flugumferðarþjónustudeilda yrði ekki fyrir utanaðkomandi truflun við störf sín, t.d. í verklagi um gestakomur á vinnustöðvar flugumferðarstjóra,“ segir í svari ráðherra.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/01/31/alvarlegt_flugumferdaratvik_enski_boltinn_trufladi/