þri. 9. sept. 2025 10:15
Mark Zuckerberg forstjóri Meta og Donald Trump Bandaríkjaforseti í kvöldverðarboði forsetans.
Trump hótar ESB hefndum

Á örfáum dögum hefur tæknifyrirtækið Google verið sektað um samtals nærri fimm milljarða evra. Þó að aðgerðirnar virðist samhæfðar, eru þær í raun óháðar og byggðar á mismunandi lögum og regluverki í hverju landi. Þær virðast hins vegar endurspegla vaxandi vilja stjórnvalda víða til að takast á við vald tæknirisanna og krefjast aukinnar ábyrgðar. Á sama tíma hefur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótað tollastríði í mótmælaskyni.

Evrópusambandið (ESB) sektaði nýverið Google um 2,95 milljarða evra fyrir að hygla eigin auglýsingakerfum á kostnað keppinauta. Samkvæmt framkvæmdastjórn ESB hefur Google misnotað stöðu sína í svokölluðum adtech-geira með því að láta eigin þjónustu njóta forgangs í birtingu og kaupum á auglýsingum. Fyrirtækið hefur 60 daga til að leggja fram úrbótaáætlun, ella gæti ESB krafist uppskiptingar á auglýsingadeild Google.

Í Frakklandi fékk Google 325 milljóna evra sekt frá stofnuninni CNIL þar í landi, sem sér um vernd upplýsinga, fyrir að birta auglýsingar í póstforritinu Gmail án samþykkis notenda og fyrir að setja vefkökur við stofnun Google reikninga án fullnægjandi upplýsinga. Tískurisinn Shein fékk reyndar einnig 150 milljóna evra sekt fyrir svipuð brot, þar sem fyrirtækið setti vefkökur á tölvur notenda án samþykkis og veitti ófullnægjandi upplýsingar um tilgang þeirra. Það er því ekki einungis verið að sekta Google í Frakklandi.

Evrópulönd eru ekki þau einu sem herja á Google því innan Bandaríkjanna fékk félagið nýverið á sig dóm. Alríkisdómstóll í San Fransisco dæmdi Google til að greiða 425 milljónir dala í bætur fyrir að safna gögnum úr smáforritum notenda, jafnvel eftir að slökkt hafi verið á rakningarstillingum. Dómarinn taldi að Google hafi brotið gegn persónuverndarlögum með því að halda áfram að safna gögnum í gegnum þjónustu eins og fyrir Uber og Instagram.

Donald Trump hefur fordæmt sekt ESB og lýst henni sem árás á bandarískt hugvit. Hann hefur gengið svo langt að hóta því að hefja nýtt tollastríði gegn Evrópu. Á sama tíma stillir hann sér upp sem verndara bandarískra tæknirisa.

Forsetinn hélt á dögunum kvöldverð í Hvíta húsinu fyrir helstu leiðtoga tæknigeirans, þar á meðal Sundar Pichai (Google), Tim Cook (Apple), Mark Zuckerberg (Meta), Bill Gates (Microsoft) og Sam Altman (OpenAI). Elon Musk var fjarverandi, en fékk þó boðskort.

Leiðtogarnir lofuðu forsetann fyrir stuðning við nýsköpun og lýstu yfir milljarðafjárfestingum í bandarískum innviðum og gervigreind. Sem dæmi þá lýsti Zuckerberg því yfir að Meta muni fjárfesta fyrir 600 milljarða dala í Bandaríkjunum fram til ársins 2028. Reyndar lofaði Zuckerberg þessu fyrir framan myndavélarnar, settist síðan niður og spurði Trump hvort þetta hafi ekki örugglega verið rétta upphæðin.

Tæknirisarnir eru ekki lengur einungis í alþjóðlegri samkeppni, heldur miðpunktur alþjóðlegra deilna. Google er þar í eldlínunni í augnablikinu, evrópskar eftirlitsstofnir beita félagið milljarðasektum og bandarísk stjórnvöld svara með hótunum um tolla og aukna skattheimtu. Eitt er víst, það er allt mögulegt með Trump sér við hlið og líklegt að ESB þurfi að undirbúa sig fyrir annan fund með Trump.

til baka