RÚV hefur staðfest þátttöku Íslands í Eurovision sem haldið verður í Vín í Austurríki í maí á næsta ári. Það er þó gert með fyrirvara um viðbrögð EBU varðandi þátttöku ísraelska ríkissjónvarpsins KAN í keppninni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV en þar segir að RÚV hafi þegar á vettvangi EBU, Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, gert athugasemdir við þátttöku KAN í keppninni og mun eins og áður fylgjast náið með þróun þeirra mála á vettvangi EBU og hefur áskilið sér rétt til að hætta við þátttöku í henni ef ekki verður brugðist við með fullnægjandi hætti af hálfu EBU.
Tíu lög verða valin til keppni
„Opnað hefur verið fyrir innsendingar laga í Söngvakeppnina 2026 á slóðinni songvakeppnin.is. Eins og áður verða tíu lög valin til keppni hér heima og sigurlagið verður framlag Íslands í Eurovision sem fram fer í Vínarborg í Austurríki í maí á næsta ári, með þeim fyrirvara sem um ræðir hér að ofan,“ segir í tilkynningunni.
Söngvakeppnin 2026 verður afar glæsileg, að sögn framleiðenda keppninnar. Fjörutíu ár verða liðin frá því að Ísland tók fyrst þátt í Eurovision, þegar ICY-tríóið hélt til Bergen í Noregi með Gleðibankann og verður þeim tímamótum fagnað í keppninni í ár.
„Við ætlum að fagna þessu 40 ára þátttökuafmæli með veglegum hætti,“ segir Rúnar Freyr Gíslason, framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar.
RÚV hvetur alla laga- og textahöfunda landsins til að senda inn lag. Söngvakeppnin fagnar fjölbreytileikanum eins og alltaf og tekið verður á móti öllum tegundum af tónlist. Öllum lagahöfundum er frjálst að senda inn lög á songvakeppnin.is og mun valnefnd Söngvakeppninnar taka allar innsendingar til umfjöllunar. Niðurstöður verða senda höfundum í síðasta lagi 1. desember 2025.
Frestur til að senda inn lag rennur út á miðnætti miðvikudaginn 8. október.