þri. 9. sept. 2025 08:22
Gert er ráð fyrir tæplega 133 milljörðum vegna málefnasviðs örorku og fatlaðs fólks í frumvarpinu.
Útgjöld aukast verulega í fjárfrekum málaflokkum

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kynnti fyrstu fjárlög ríkisstjórnarinnar í gær en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs á næsta ári nemi um 15 milljörðum króna.

Fjármálaráðherra lýsir frumvarpinu sem aðhaldssömu og í tilkynningu frá ráðherranum segir að þessi ríkisstjórn muni ekki eyða umfram efni en hún muni heldur ekki halda mikilvægum kerfum í fjársvelti.

„Það krefst ábyrgðar og hagsýni en við munum standa vörð um lífsgæði almennings án þess að senda komandi kynslóðum reikninginn,“ er haft eftir ráðherranum.

Rétt er að halda því til haga að aðhald, í skilningi ríkisfjármála, er ekki það sama og niðurskurður. Aðhald felur í sér að halda aftur af útgjaldaaukningu fremur en að draga úr þeim, og þá í samhengi við hagvöxt, það er að útgjöld aukist ekki hraðar en hagvöxtur.

Útgjöld aukast víðast hvar

Þegar litið er yfir sundurliðun málefnasviða má sjá að útgjaldaaukning er í langflestum þeirra og aukningin er umtalsverð á fjárfrekustu málefnasviðunum.

Ef miðað er við niðurbrot málefnasviða má sjá að þyngst vegur fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar. Þar vegur vaxtakostnaður ríkisins þungt. Í fjárlögum 2026 er gert ráð fyrir ríflega 206 milljörðum króna vegna þessa en það er aukning um 14,2% frá fyrri fjárlögum. Þar er vaxtakostnaður í aðalhlutverki, enda eykst vaxtakostnaður um nær fjórðung, úr rúmlega 100 milljörðum í 125 milljarða.

Næstfjárfrekust er sjúkrahúsþjónusta, en í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir yfir 130 milljörðum í málefnasviðið, sem er aukning um rúm 10% frá fyrri fjárlögum. Aukning í flokki sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu vegur þar þyngst.

Þá er gert ráð fyrir tæplega 133 milljörðum vegna málefnasviðs örorku og fatlaðs fólks, sem er aukning um rétt tæp 18% frá fyrri fjárlögum. Þar vegur útgjaldaaukning vegna hærri örorkubóta þungt, útgjöld vegna málaflokksins aukast um nærri 70% úr 68 milljörðum í 115. Á móti dragast útgjöld í flokki fatlaðs fólks saman um nær 39 milljarða og jöfnunarframlag vegna örorkubyrðar lífeyrissjóða sem nam 4,5 milljörðum í síðustu fjárlögum fellur út.

Útgjöld til orkumála lækka

Aðrir flokkar þar sem gert er ráð fyrir útgjöldum yfir 100 milljörðum í fjárlagafrumvarpinu eru málefni aldraðra, þar sem útgjöld næsta árs eru áætluð 127,6 milljarðar en þar nemur aukning milli ára 4,9%, og heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa, þar sem útgjöld næsta árs eru áætluð 102,8 milljarðar og aukast þau um 5,9% frá fyrri fjárlögum. Þar af aukast framlög vegna heilsugæslu frá fyrri fjárlögum um 4 milljarða, eða tæp 8%, og vegna sérfræðiþjónustu um milljarð, úr 36 milljörðum í 37.

Sé litið til þeirra fáu málefnasviða þar sem útgjöld dragast að óbreyttu saman milli fjárlaga eru orkumál fyrirferðarmest en gert er ráð fyrir 11,6 milljörðum vegna þeirra, sem er 16,2% lækkun.

Þá lækka útgjöld milli fjárlaga vegna réttinda einstaklinga, trúmála og stjórnsýslu dómstóla um 10% og er nú gert ráð fyrir 23,6 milljörðum á því sviði. Útlendingamál vega þyngst í þeirri lækkun, en þar er gert ráð fyrir 6,6 milljörðum en í síðustu fjárlögum var gert ráð fyrir 9,5 milljörðum króna.

Útgjöld vegna húsnæðis- og skipulagsmála minnka um 7% í 26 milljarða og útgjöld vegna lægri skólastiga og stjórnsýslu um 2,3% í 6,9 milljarða. Það er einkum vegna 4,1% lækkunar á útgjöldum vegna leikskóla- og grunnskólastigs.

Loks lækka útgjöld vegna nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina um 1,4% í 37,2 milljarða milli fjárlaga og útgjöld vegna ferðaþjónustu um 0,6% í 2,4 milljarða.

 

til baka