Gul viðvörun er á Austfjörðum til klukkan 11 en talsverðri eða mikilli rigningu er spáð, einkum á sunnanverðum Austfjörðum. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum.
Vindur snýst í suðvestan og sunnan 8-15 m/s með skúrum. Það verður rigning fyrir austan fram eftir morgni en það styttir upp á Norðaustur- og Austurlandi seinnipartinn. Hitinn verður á bilinu 8 til 16 stig og verður hlýjast norðaustan til. Vind tekur að lægja í kvöld.
Á morgun gengur í austan og norðaustan 5-15 m/s og fer að rigna allvíða, hvassast verður syðst. Það dregur úr vætu norðaustanlands síðdegis, og vestan til annað kvöld. Hitinn verður á bilinu 8 til 14 stig.