Reyksprengju var kastað inn á pall við húsnæði í Hafnarfirði í gærkvöld eða í nótt en lögreglunni barst tilkynning um hótanir og er einn grunaður í málinu.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 41 mál skráð í kerfinu á umræddu tímabili og gista þrír í fangageymslu nú í morgunsárið.
Tilkynnt var um innbrot og þjófnað í nokkrum verslunum á höfuðborgarsvæðinu og eitt húsbrot. Eitt málanna var afreitt á vettvangi en í hinum eru gerendur ókunnir.
Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir í akstri. Annar ökumannanna var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og í hinu tilfellinu kom í ljós að ökumaðurinn var réttindalaus.