þri. 9. sept. 2025 06:00
Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borginni.
Vinnubrögðin með ólíkindum

„Þessi vinnubrögð eru með ólíkindum. Umrædd villa komst gegnum samþykktarferli í bæði forsætisnefnd og borgarstjórn án þess að nokkur úr meirihlutanum ræki augun í það. Það var ekki fyrr en við í minnihlutanum gerum athugasemdir að brugðist er við,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið.

Hún vitnar hér til þess sem frá var greint í blaðinu á laugardag, að sjálfstæðismenn í borgarstjórn vefengdu lögmæti breytinga á samþykktum endurskoðunarnefndar borgarinnar sem samþykktar voru af meirihlutaflokkunum á borgarstjórnarfundi í sl. viku. Sagði Hildur í samtali við blaðið við það tækifæri að útlit væri fyrir að hið nýja fyrirkomulag stangaðist bæði á við lög og góða stjórnarhætti.

Nú hafa þau tíðindi borist úr ranni meirihlutans að umrædd breyting hafi verið samþykkt fyrir mistök. Aðra tillögu hefði átt að samþykkja en þá sem samþykkt var. „Þetta ber ekki vitni um gott vinnulag í stjórnsýslu borgarinnar, því miður. Að þetta skuli bæði hafa komist í gegnum nálarauga forsætisnefndar og meirihluta borgarstjórnar á vettvangi hennar, veldur því að ég spyr mig hvort fólk lesi ekki gögnin og kynni sér ekki þær tillögur sem það sjálft leggur fram til samþykktar.“ 

Nánar má lesa um málið á bls.10 í Morgunblaðinu í dag og í Mogga-appinu

til baka