Formenn ríkisstjórnarflokkanna kynna þingmálaskrá sína á blaðamannafundi kl. 10 í dag, en í henni eru 157 þingmál miðað við handrit sem Morgunblaðið hefur fengið að sjá.
Þar af eru 42 endurflutt mál, 20 EES-innleiðingar og 11 þingsályktunartillögur. Sum mál eru raunar endurflutt með einhverjum breytingum, því má segja að þar ræði um tæplega 80 ný frumvörp.
Í febrúar kynnti stjórnin 114 þingmál á vorþinginu einu, svo að fjöldi boðaðra þingmála nú, fyrir bæði haustþing og vorþing, endurspeglar orð Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra fyrir skömmu um að stjórnarliðar myndu gæta þess að þessu sinni að færast ekki of mikið í fang á Alþingi.
Mjög er misjafnt hvað ráðherrarnir ráðgera að leggja fram og margt svokölluð rekstrarmál.
Flest af boðuðum málum hefur áður verið látið skína í með ýmsum hætti og fátt þar sem beinlínis kemur á óvart.
Meðal athyglisverðra mála má nefna frumvörp um rafrænar undirskriftir við æðstu stjórn landsins, strangar takmarkanir á nýtingu eignarréttar vegna gistisölu í heimahúsum, veltumörk á tilkynningaskyldum samruna fyrirtækja, innviðagjöld á ferðamannastaði, margvísleg frumvörp um útlendingamál, hækkun frítekjumarks ellilífeyris, innviðafélag ríkisins, skatta á erlendar streymisveitur, gervigreindarmiðstöð hins opinbera, takmörk á auglýsingar í Rúv., reglur um snjalltæki í grunnskólum og jöfnun rakorkudreifingarkostnaðar, svo fátt sé nefnt. Til stendur að frumvarp um bókun 35 komi fram í upphafi þings.