þri. 9. sept. 2025 06:00
Utanríkisráðherra greindi utanríkismálanefnd frá aðgerðum sem ríkisstjórnin hyggst ráðast í til að skapa aukinn þrýsting á Ísraelsstjórn um vopnahlé, að hún virði alþjóðalög og komi mannúðaraðstoð inn á Gasasvæðið.
Farbann sett á ísraelska ráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra greindi utanríkismálanefnd Alþingis frá aðgerðum sem ríkisstjórnin hyggst ráðast í til að skapa aukinn þrýsting á Ísraelsstjórn um að vinna að vopnahléi, virða alþjóðalög og koma mannúðaraðstoð inn á Gasasvæðið.

Stefnt er að því að farbann verði sett á Itamar Ben-Gvir þjóðaröryggisráðherra og Bezalel Smotrich fjármálaráðherra í samvinnu við dómsmálaráðuneytið. Það verður gert með því að beita útlendingalögum eins og Norðmenn hafa gert.

Samningnum ekki slitið

Þorgerður Katrín segir í samtali við Morgunblaðið að fundurinn hafi verið góður og að hún hafi fengið gagnlegar spurningar og ábendingar. Áherslumunur hafi þó verið á nálgun milli nefndarmanna og fólk ekki endilega sammála um allt. „Í þessu erfiða máli verður það aldrei þannig að stjórnvöld hverju sinni geti gert öllum til geðs.“

Í aðdraganda fundarins var sá möguleiki viðraður að fríverslunarsamningi Íslands í gegnum EFTA yrði slitið. Á fundinum greindi Þorgerður nefndarmönnum hins vegar frá því að ríkisstjórnin teldi það ekki rétt í stöðunni, þá sérstaklega í ljósi EFTA-samstarfsins í heild sinni, sem ráðherrann segir Íslendingum gríðarlega mikilvægt. Íslensk stjórnvöld munu þó ekki uppfæra samninginn og í því felist táknræn yfirlýsing af hálfu Íslands.

Þorgerður Katrín segir að skoðað verði af miklum krafti og þunga að Ísland skili greinargerð í máli Suður-Afríku gegn Ísrael vegna hópmorðs fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og íslensk stjórnvöld muni krefjast þess að vörur frá hernumdu svæðunum verði merktar sérstaklega, sem ekki hafi verið gert hingað til.

Tíðindaminni fundur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson situr í utanríkismálanefnd fyrir Miðflokkinn. Fundurinn var töluvert tíðindaminni en hann gerði ráð fyrir miðað við þá umræðu sem átti sér stað í aðdraganda hans.

„Það voru kynnt þarna áform um ferðabann á einhverja tvo menn, sem væntanlega þýðir að þeir megi ekki koma til Íslands. Það er náttúrulega bara táknræn aðgerð,“ segir Sigmundur í samtali við Morgunblaðið. „Ég hugsa að hvorugur þeirra hafi haft mikinn áhuga á að fara í Íslandsferð.“

Sigmundur segir fínt að Íslendingar lýsi löngun sinni til að það verði friður og að Ísland eigi alltaf að tala fyrir friði, ekki bara fyrir botni Miðjarðarhafs heldur annars staðar líka.

Hins vegar sé mjög mikilvægt að menn hugi ekki bara að yfirlýstum markmiðum með því sem gert er heldur raunverulegum áhrifum. Segir hann oft geta verið dálítinn mun þar á.

„Við viljum ekki að Vesturlönd ýti undir þá hugmynd hjá Hamas að það sé að virka að fórna fjölda óbreyttra borgara og börnum. Þeir hafa sjálfir lýst því að þeir telji mikinn kost að færa þessar fórnir því það styðji málstað þeirra. Skilaboðin frá Vesturlöndum mega ekki vera þau að þetta sé leiðin.“

Tala fyrir friði

Sigmundur segir að bæði hér og víða annars staðar í heiminum finnist sér menn oft og tíðum nálgast hrikalegt ástandið fyrst og fremst út frá eigin þörf fyrir að hafa virst vera að gera eitthvað – tékka í box, fremur en að koma með hugmyndir eða lausnir sem geti raunverulega náð mönnum upp úr skotgröfunum og stuðlað að friði. Í hina röndina segir hann marga hafa farið flatt á því að ímynda sér að þeir gætu stillt til friðar í þessum heimshluta.

„Ég hef aðallega áhyggjur af því að við gerum eitthvað sem sé til þess fallið að ýta mönnum enn frekar ofan í skotgrafirnar. Við eigum frekar að gera það sem er til þess fallið að draga þá upp úr þeim. Áhersla okkar á að vera á hjálparstarf og að tala fyrir friði en ekki valda skaða.“

til baka