mán. 8. sept. 2025 19:54
Jonas Gahr Støre (sitjandi með rautt bindi) fagnar fyrstu tölum ásamt sínu fólki á kosningavöku Verkamannaflokksins í kvöld en á myndinni má einnig sjá Jens Stoltenberg fyrrverandi forsætisráðherra sem situr lengst til vinstri á myndinni.
Støre stefnir í stórsigur – 28,0% eftir talningu þriggja fjórðu hluta atkvæða

Allar líkur eru á að Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins í Noregi, megi búa sig undir fjögur ár til viðbótar í forsætisráðherrabústaðnum, skrifar norska dagblaðið VG nú þegar þrír fjórðu hlutar atkvæða hafa verið taldir í þingkosningunum í Noregi.

Miðað við stöðuna að þeim töldum hefur Verkamannaflokkurinn 28 prósent atkvæða sem er nokkru meira en þau 27,1 prósent sem spáð var í síðustu skoðanakönnunum fyrir kosningar.

Framfaraflokkurinn með sögulegt fylgi

Þá stefnir Framfaraflokkurinn í bestu kosningaúrslit í sinni sögu með 24,8 prósent talinna atkvæða, nokkuð yfir stöðunni í síðustu könnun sem gaf flokknum innan við 22 prósent.

Þrátt fyrir þetta stefnir ekki í að hægriflokkarnir standi með pálmann í höndunum að öllum atkvæðum töldum þar sem Hægriflokkur Ernu Solberg er nánast í frjálsu falli með 14,2 prósent atkvæða sem er 6,1 prósentustigi undir útkomu síðustu kosninga og versta kosning flokksins í tvo áratugi.

VG

NRK

til baka