Aðsend grein úr Morgunblaðinu:
Margt áhugavert má finna í gögnum Evrópusambandsins í tengslum við misheppnaða umsókn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um inngöngu í sambandið frá 2009. Þar kemur meðal annars fram, sem ekki þarf að koma á óvart, að innganga í Evrópusambandið hefði kallað á mjög umfangsmikla „stofnanauppbyggingu“, það er að segja útþenslu hins opinbera, til þess að landið gæti staðið undir þeim skuldbindingum sem fylgdu veru í sambandinu.
Til dæmis er smæð íslenzku stjórnsýslunnar að áliti Evrópusambandsins til umfjöllunar í skjali á vegum framkvæmdastjórnar þess frá árinu 2011 sem nefnist „Commission decision of 08.04.2011 on a Multi-annual Indicative Planning Document (MIPD) 2011-2013 for Iceland“ og unnið var í kjölfar úttektar sambandsins á stjórnsýslu landsins vegna umsóknarinnar. Leynir sér ekki það sjónarmið að stjórnsýslan sé ekki í stakk búin til að höndla inngöngu í það.
„Heilt á litið er [íslenzka] stjórnsýslan lítil og býr við takmarkaðar fjárveitingar. Verulegur niðurskurður á opinberum útgjöldum hefur enn fremur átt sér stað til þess að takast á við fjárhagserfiðleikana í kjölfar efnahagskrísunnar árið 2008. Niðurskurðurinn hefur dregið enn frekar úr getu stjórnsýslu Íslands til þess að sinna undirbúningi fyrir inngöngu í Evrópusambandið sem þó var takmörkuð að stærð fyrir,“ segir þannig í skjalinu.
Fram kemur einnig í skjalinu að Ísland muni þurfa „að byggja upp getu stjórnsýslunnar til þess að taka upp, þýða og innleiða löggjöf sambandsins og koma á laggirnar öllum þeim nauðsynlegu innviðum sem vera innan þess gerir kröfu um. […] Stjórnsýsla Íslands er lítil. Hjá stjórnarráðinu starfa um 700 opinberir starfsmenn og það samanstendur af tíu ráðuneytum. […] Ráðuneytin eru lítil og hafa á bilinu 26 til 214 starfsmenn. Að meðaltali 58 starfsmenn.“
Kemur aðallega frá ESB
Með öðrum orðum er deginum ljósara að gagnrýni á umfang stjórnsýslunnar hér á landi á enga samleið með þeirri stefnu að gengið verði í Evrópusambandið. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að einkum Viðreisn hafi í stjórnarandstöðu talað reglulega á þeim nótum. Ríkisstjórnin hefur nú sagst ætla að gera átak í því að einfalda hérlent regluverk en skili það einhverjum árangri er ekki ósennilegt að flækja þyrfti það á nýjan leik kæmi til inngöngu í sambandið.
Hitt er svo annað mál að mikill meirihluti af því regluverki sem er til þess fallið að flækja hlutina hér á landi fyrir atvinnulífið kemur þegar frá Evrópusambandinu í gegnum aðildina að EES-samningnum samkvæmt skýrslu ráðgjafanefndar um opinberar eftirlitsreglur frá 2016, einu úttektinni sem gerð hefur verið í þeim efnum, en nefndina skipuðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og Alþýðusambands Íslands auk fulltrúa stjórnvalda.
Fram kemur í skýrslunni að á árunum 2013-2016 hafi 35 lagafrumvörp verið samþykkt á Alþingi sem haft hafi áhrif á reglubyrði atvinnulífsins. Þar af hafi 29 frumvörp verið íþyngjandi fyrir atvinnulífið, þá annað hvort einungis íþyngjandi (17) eða bæði íþyngjandi og til einföldunar (12). Af þessum 29 frumvörpum hafi 20 verið vegna reglna í gegnum EES-samninginn. Mikill meirihluti frumvarpa sem voru einungis íþyngjandi voru vegna hans eða 14 af 17.
Hvað svonefnda gullhúðun, eða blýhúðun, varðar var íþyngjandi regluverk frá Evrópusambandinu innleitt meira íþyngjandi í sjö tilfellum. Það er þriðjungur þeirra. Miðað við skýrsluna er ljóst að gullhúðun regluverks frá sambandinu í gegnum EES-samninginn er ekki stærsti vandinn í þessum efnum, þó hún sé sannarlega vandamál sem taka þurfi föstum tökum, heldur sjálft regluverkið sem kemur frá sambandinu. Gullhúðunin gerir fyrst og fremst illt verra.
Ekki þeirra regluverk
Fram kemur í skýrslu ráðgjafanefndarinnar að ekki hefði náðst merkjanlegur árangur fram að ritun hennar varðandi það að einfalda íþyngjandi regluverk og er það einkum rakið til þess að meirihluti slíks regluverks kæmi frá Evrópusambandinu. Svo er væntanlega í ríkari mæli í dag þar sem gerðar hafa verið síðan ákveðnar atlögur að því að draga úr byrði innlends regluverks. Hins vegar geta stjórnvöld lítið gert í regluverki sambandsins enda ekki þeirra.
Við þetta bætist að á sama tíma og óheimilt er að innleiða regluverk frá Evrópusambandinu minna íþyngjandi en það kemur í gegnum EES-samninginn hefur stjórnsýslan hér á landi í raun fullt svigrúm til þess að innleiða það meira íþyngjandi. Væri samningnum skipt út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning, líkt og við gerðum með góðum árangri í tilfelli Bretlands, væri hins vegar mögulegt að setja minna íþyngjandi reglur í stað regluverksins eða alls engar.
Vitanlega þarf þetta ekki að koma á óvart enda stjórnsýsla Evrópusambandsins miðað við milljóna- og tugmilljónaþjóðir. Langur vegur er frá því að íslenzkt regluverk geti ekki verið íþyngjandi en við þurfum hins vegar enga aðstoð frá sambandinu í þeim efnum. Vegna EES-samningsins erum við í þeirri stöðu að þurfa í vaxandi mæli að aðlaga hagsmuni okkar og aðstæður að regluverki sem samið er af öðrum og hugsað fyrir allt aðra hagsmuni og aðstæður.
Með öðrum orðum er ljóst að sé raunverulegur vilji til þess að draga úr yfirbyggingunni hér á landi og íþyngjandi regluverki er ekki aðeins mikilvægt að standa áfram utan Evrópusambandsins heldur einnig að endurskoða aðildina að EES-samningnum með það fyrir augum að skipta honum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning eins og ríki heimsins kjósa að semja um í dag. Markmiðið hlýtur alltaf að vera hagsmunir Íslands en ekki einstakir samningar.
Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur og heldur úti vefsíðunni Stjórnmálin.is