mán. 8. sept. 2025 20:42
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins.
Ófremdarástand sem er stærra en nokkuð annað mál

Mál hælisleitenda eru stærsta viðfangsefni samfélagsins og það kemur ekki á óvart að meirihluti landsmanna sé óánægður með núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlausson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is.

Hann segir þetta í kjölfar nýrrar könnunar á vegum Prósents þar sem meðal annars kemur fram að innan við fjórðungur landsmanna sé ánægður með stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum hælisleitenda.

Könnunin var unnin fyrir hópinn Ísland þvert á flokka.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/oanaegja_med_stefnu_rikisstjornarinnar/

Mesta áhyggjuefni samfélagsins

„Þetta ófremdarástand sem hefur verið í þessum málum á Íslandi undanfarin ár er meira áhyggjuefni en nokkuð annað,“ segir Sigmundur.

Hann bætir við að möguleikar stjórnvalda á að laga menntamál, heilbrigðismál, löggæslu, húsnæðismál og hagþróun séu afar takmarkaðir á meðan við höfum ekki stjórn á landamærunum.

„Þar af leiðandi finnst mér mjög eðlilegt að fólk hafi áhyggjur af þessu,“ segir hann og bætir við að hlutfall útlendinga hér á landi hafi vaxið hraðar en nokkurs staðar annars staðar á undanförnum árum.

73% lands­manna eru á þeirri skoðun að Ísland ætti að taka á móti færri hæl­is­leit­end­um í ár en gert var í fyrra. Ein­ung­is 12% lands­manna eru því ósam­mála, samkvæmt könnuninni.

Vill ný útlendingalög

Sigmundur undirstrikar mikilvægi þess að ný útlendingalög verði sett á.

„Þessi lög sem tóku gildi 2017 eru hræðileg og það lá, að mínu mati, fyrir frá upphafi,“ segir hann og bætir við að með lögunum hafi margt illt verið gert verra.

Hann segir Ísland vera í betri stöðu en nokkuð annað vestrænt ríki til að ná stjórn á landamærum sínum.

„Við erum lengst norður í Atlantshafi og það kemur enginn hingað öðruvísi en að hafa komið við í öðru öruggu ríki; þá á að beita Dyflinnarreglugerðinni þar sem ætlast er til þess að fólk leiti hælis í fyrsta örugga ríkinu sem það kemur til,“ segir hann.

„Við erum í einstaklega góðri stöðu til þess að gefa það út að enginn sem mætir til Íslands til að sækja hér um hæli fái hæli,“ bætir hann við.

Hann segir að með þessu sé hægt að velja hverjir fái að setjast hér að og hjálpa miklu fleirum með því að hjálpa í nærliggjandi löndum þar sem peningarnir nýtast betur.

Vonar að ríkisstjórnin bregðist við

Sigmundur segist vona að niðurstöður könnunarinnar verði nokkurs konar spark í rassinn fyrir núverandi ríkisstjórn.

„Þessi ríkisstjórn hefur gjarnan vísað í skoðanakannanir og þetta er nú býsna afgerandi,“ segir Sigmundur.

Hann gagnrýnir einnig nýlega yfirlýsingu dómsmálaráðherra.

„Það dugar ekkert að ráðherrar komi með yfirlýsingar eins og dómsmálaráðherra kom með um daginn og svo gerist ekki neitt. Þetta ástand kallar á afgerandi pólitískt inngrip,“ segir hann að lokum.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/05/fjolgun_kallar_a_nyja_og_betri_stefnu/

til baka