mán. 8. sept. 2025 21:20
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, kveðst nokkuð ánægður með fjárlagafrumvarpið heilt yfir þótt ýmis áhyggjuefni megi tína til.
„Þurfum að sjá aðeins betur á spilin“

„Okkur finnst frumvarpið fela í sér jákvæð tíðindi, alla vega þegar við horfum upp á það að hallinn er fimmtán milljarðar sem er minna en mátti búast við,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við mbl.is um fjárlagafrumvarp ársins 2026 og bætir því við að minni halli ýti undir stöðugleika og ætti að stuðla að því að draga úr verðbólgu og ná niður vöxtum.

SI fagni því að ríkisstjórnin hafi lagt sig fram um að ná hallanum niður, á móti komi hins vegar ákveðin óvissa um efnahagsforsendurnar. „Gengið er út frá því að efnahagsaðstæður séu tiltölulega hagfelldar og við það styrkist tekjuhliðin en að þessu er ekki hægt að ganga vísu,“ segir Sigurður og er spurður út í ummæli um ábyrgð ríkisins á húsnæðismálum í viðtali við mbl.is 21. ágúst.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/21/rikid_taki_meiri_abyrgd_a_husnaedismalunum/

Þá sagði Sigurður Samtök iðnaðarins hafa saknað þess mjög að sjá ekki ákveðnari innkomu ríkisins og að það tæki meiri ábyrgð á húsnæðismálunum og létti þannig undir með Seðlabankanum, ríkið ætti að vera í því hlutverki að vinna með sveitarfélögunum að því að auka framboð. Nú væri boltinn hjá ríkisstjórninni og hlakkaði menn hjá SI til að sjá fjárlagafrumvarpið.

Hvað segirðu um það núna þegar frumvarpið er komið fram?

„Almennt séð eru þarna þættir sem styðja við að ná niður vöxtum og verðbólgu en varðandi húsnæðismálin eru þau flóknara mál og við þurfum að sjá aðeins betur á spilin í sértækum aðgerðum,“ svarar Sigurður og kveðst sakna áherslu á þætti á borð við endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna á verkstað sem síðasta ríkisstjórn hefði lækkað og þar með dregið úr hvötum til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis.

Rót verðbólgu liggur þarna

„Fólki hefur hins vegar fjölgað mikið og vantað framboð sem er vandamál en hins vegar eru jákvæðar fréttir að sjá fjóra milljarða í hlutdeildarlán svo dæmi sé tekið, við erum ánægð með að sjá þau skilaboð,“ segir hann enn fremur.

Eins kveðst Sigurður spenntur að sjá framhald vinnufundar sem Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hélt í síðustu viku um húsnæðismál og hvað hægt væri að gera á þeim vettvangi.

„Við erum líka spennt að sjá hvernig ríkisstjórnin tekur þau mál áfram. Rót verðbólgu liggur þarna en ríkisfjármálin, það er að segja áform um að skila fimmtán milljarða halla en ekki meira, eins og búast mátti við, eru mjög gott innlegg í hagstjórnina með þeim fyrirvörum að óvissan er talsverð,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hvað finnst þér þá um áform um að koma á fimmtán prósenta alheimslágmarksskatti?

„Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt af nálinni, kemur frá OECD [Efnahags- og framfarastofnun Evrópu] og hefur verið í Samráðsgáttinni,“ svarar Sigurður og kveður SI ekki hafa séð neina sérstaka meinbugi á slíkum lágmarksskatti á Íslandi.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/stefnt_a_upptoku_15_prosent_alheimslagmarksskatts/

„Þarna eru lönd heims að reyna að samræma stefnumörkun í skattamálum. Með nokkrum fyrirvörum höfum við talið þetta vera jákvæðara fyrir Ísland en hitt vegna þess að Ísland er háskattaríki og skattar hér háir í alþjóðlegum samanburði, svo þetta kemur ágætlega við okkur,“ segir hann.

Útfærsla kílómetragjalds skipti máli

Þá kveðst Sigurður fagna því að skattahækkanir á fyrirtæki séu ekki boðaðar, „en við sjáum merki á borð við jöfnunargjald á flutning raforku sem kemur illa við stórnotendur raforku en kemur minni fyrirtækjum til góða“, segir hann og nefnir auk þess að í fjárlagafrumvarpinu sé talað um að festa skattahvata vegna rannsóknar og þróunar í sessi, sem hafi verið algjör grundvöllur fyrir vöxt hugverkaiðnaðar á Íslandi.

„Þessu fögnum við og það styður auk þess vel við markmið ríkisstjórnarinnar um að auka fjárfestingar í hagkerfinu í rannsóknum og þróun upp í 3,5 prósent eins og forsætisráðherra kynnti á fundi um atvinnustefnu í síðustu viku,“ segir Sigurður.

Hann segir Samtök iðnaðarins hafa sýnt upptöku kílómetragjalds á fólksbíla skilning en hins vegar skipti útfærsla gjaldsins miklu máli. „Þegar við skrifuðum umsögn um það á síðasta þingi voru atriði þar sem við settum spurningarmerki við.“

Hvað menntamál snertir segist hann hafa áhyggjur af að boðuðum framkvæmdum við stækkun verknámsskóla um allt land verði frestað. „Ég gat ekki skilið ráðherra öðruvísi í vor en að þessar framkvæmdir færu af stað á næsta ári en miðað við frumvarpið munu þær frestast um eitt ár, til 2027, sem er slæmt því þörfin er mikil. Á hverju ári er umsóknum synjað vegna þess að það er ekki til pláss og við höfum áhyggjur af því,“ segir Sigurður.

Plúsar og mínusar

Heilt yfir kveðst hann ánægður með fjárlagafrumvarpið, sérstaklega að boðaður halli verði ekki meiri og unnið sé að auknum stöðugleika sem skipti heimili og ekki síður fyrirtæki landsins mjög miklu máli.

„Ég get ekki ímyndað mér annað en að Seðlabankinn taki þessu vel sem ætti að flýta fyrir lækkun vaxta, þannig að þarna eru plúsar og mínusar eins og gengur,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, að lokum um nýkynnt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

til baka