mán. 8. sept. 2025 18:48
Þorgerður Katrín sagði umræðuna við nefndarmenn verið gagnlega.
Fríverslunarsamningi við Ísrael ekki slitið

Fríverslunarsamningi Íslands í gegnum EFTA við Ísrael verður ekki slitið.

Þetta kom fram í máli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra að loknum fundi hennar fyrir utanríkismálanefnd Alþingis síðdegis í dag.

Á fundinum ræddi Þorgerður Katrín þær aðgerðir sem ríkisstjórn Íslands hyggst grípa til gagnvart Ísrael vegna ástandsins á Gasa.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/07/fara_yfir_mogulegar_adgerdir_vegna_astandsins_a_gas/

Verður ekki uppfærður

Í samtali við mbl.is segir Þorgerður Katrín að fríverslunarsamningur EFTA við Ísrael verði þó ekki uppfærður. Það sé táknræn yfirlýsing af hálfu Íslands.

„Við ætlum ekki að segja honum upp. Við teljum það ekki rétt í þessari stöðu og sérstaklega ekki í ljósi EFTA-samstarfsins í heild sinni, sem er okkur Íslendingum gríðarlega mikilvægt.“

Bætir ráðherrann því við að slík aðgerð væri snúin. Þingið þurfi að koma þar að og það taki tíma. Í kjölfar ákvörðunarinnar þurfi að skila inn tilkynningu og það sé sex mánaða ferli.

Þorgerður segir þá einhliða uppsögn Íslands á samningnum ekki hafa mikil áhrif á Ísrael.

„Það yrði frekar snúin táknræn aðgerð sem myndi kannski koma í bakið á okkur síðar meir, sérstaklega þegar ástandið er orðið betra, og við vildum taka samninginn upp að nýju.“

Utanríkisráðherra segir fulla samstöðu í ríkisstjórn um að fara þessa leið.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/08/23/utanrikisradherra_hollands_segir_af_ser/

Farbann á ísraelska ráðherra

Stefnt er að því að sett verði farbann á tvo ísraelska ráðherra, Itamar Ben-Gvir þjóðaröryggisráðherra og Bezalel Smotrich fjármálaráðherra.

Þorgerður Katrín segir að það yrði gert í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, útlendingalögum beitt og farin svipuð leið og Norðmenn fóru.

Hún sagði fundinn fyrir utanríkismálanefnd hafa verið góðan, hún fengið góðar spurningar og ábendingar og umræðuna við nefndarmenn verið gagnlega.

til baka