Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í dag tilkynning um rifrildi fyrir utan íbúðarblokk í Breiðholti.
Í tilkynningunni kom fram að annar aðilinn hefði verið með hníf en þegar lögregla mætti á vettvang reyndist svo ekki vera.
Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Einnig var tilkynnt um innbrot í Skerjafirðinum á svæði lögreglustöðvar 1 sem annast eftirlit í Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ og á Seltjarnarnesi.
Á sama svæði voru afskipti höfð af ökumanni sem ók undir áhrifum fíkniefna. Ökumaðurinn reyndist einnig bráðabirgðasviptur en var laus úr haldi lögreglu að blóðsýnatöku lokinni.
Hjólaði á kyrrstæðan bíl
Þá hjólaði reiðhjólamaður á kyrrstæða bifreið án tjóns og umferðaróhapp varð í Múlahverfi, einnig án slysa.
Í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi voru ökumenn stöðvaðir fyrir akstur án bílnúmera að framan og fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna eða lyfja.
Tvö ökutæki voru boðuð í skoðun vegna vanrækslu á skoðunarskyldu.