mán. 8. sept. 2025 17:11
Francois Bayrou var einungis forsætisráðherra í níu mánuði.
Forsætisráðherra Frakklands hrökklast frá völdum

Franska þingið hefur samþykkt vantrauststillögu á hendur Franco­is Bayrou, for­sæt­is­ráðherra Frakk­lands. Hyggst hann skila inn uppsagnarbréfi sínu til Emmanuel Macron Frakklandsforseta á morgun. 

Í atkvæðagreiðslu á þjóðþinginu greiddu 364 þingmenn atkvæði með vantrausti á ríkisstjórnina en aðeins 194 lýstu yfir trausti á hana.

„Í samræmi við 50. grein stjórnarskrárinnar verður forsætisráðherrann að leggja fram lausnarbeiðni ríkisstjórnar sinnar,“ sagði Yael Braun-Pivet, forseti þingsins.

Bayrou kallaði sjálf­ur eft­ir at­kvæðagreiðslunni en hann hef­ur aðeins verið níu mánuði í starfi. Ástæðan er lang­dreg­in umræða um fjár­lög hans, sem boða 44 millj­arða evra niður­skurð til að draga úr vax­andi op­in­ber­um skuld­um Frakk­lands.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/09/08/rikisstjorn_frakklands_a_barmi_falls/

Vill þingkosningar

Niðurstöðurnar eru ekki óvæntar en hann leiddi minnihlutastjórn og meirihluti þingsins hafði lýst því yfir að þeir myndu kjósa með vantrausti fyrir atkvæðagreiðsluna. 

Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, hefur kallað eftir nýjum þingkosningum en ekki þykir líklegt að þingið verði rofið af Macron.

Macron þarf nú að reyna að finna fimmta forsætisráðherra Frakklands á innan við tveimur árum sem þarf að mynda nýja ríkisstjórn. 

til baka