mán. 8. sept. 2025 16:52
Mikael Egill Ellertsson í leiknum á móti Aserbaídsjan.
Búinn að horfa lengi á þessa leikmenn í sjónvarpinu

„Ég er spenntur fyrir því að fara að spila þennan leik. Þetta eru frábærir andstæðingar til að spila á móti,“ sagði Mikael Egill Ellertsson, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á liðshóteli Íslands í París í dag.

Ísland mætir Frakklandi á Parc des Princes annað kvöld og viðurkennir Mikael Egill að vera spenntur fyrir þeim möguleika að mæta leikmönnum á við Michael Olise, en hann leikur jafnan á hægri kanti á meðan Mikael Egill lék í vinstri bakverði í 5:0-sigri Íslands á Aserbaídsjan á föstudagskvöld.

„Maður þekkir þessa leikmenn alveg enda er maður búinn að horfa á þá í sjónvarpinu svolítið lengi. Við erum líka búnir að skoða þá vel og erum spenntir að mæta þeim,“ sagði hann.

Undirbúningur hefur verið með besta móti. „Þetta hefur bara verið geðveikt. Í gær var ekki mikið að gera á æfingu en við vorum bara að undirbúa okkur fyrir leikinn. Þetta hefur verið flott,“ sagði Mikael Egill.

Hefur spilað nánast allar stöður

Hverju má búast við af franska liðinu?

„Við erum búnir að skoða þá. Þeir eru mikið í skyndisóknum og við vitum að það er mikill hraði í þeim þarna frammi. Þetta verður bara alvöru leikur,“ sagði Mikael Egill, sem er leikmaður Genoa á Ítalíu.

Þar hefur hann verið notaður út um allan völl á nýhöfnu tímabili í ítölsku A-deildinni.

„Ég er eiginlega búinn að spila allar stöður. Ég byrjaði djúpur á miðju á undirbúningstímabilinu, síðan kom ég inn á í fyrsta keppnisleiknum í holuna. Svo í öðrum leiknum, sem ég byrjaði, var ég hægri kantur/vængbakvörður, þá var ég að elta bakvörðinn hjá Juventus upp og niður,“ útskýrði Mikael Egill.

Kann hann því vel að geta leyst margar stöður. „Það er náttúrlega kostur myndi ég segja. Mér finnst það bara gaman,“ sagði Mikael Egill og bætti því við að honum líði mjög vel í vinstri bakverði með landsliðinu.

til baka