„Þetta leggst mjög vel í mig. Frakkarnir eru með mjög gott lið og við þurfum bara að sýna hvað í okkur býr,“ sagði Kristian Nökkvi Hlynsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á liðshóteli Íslands í París í dag.
Ísland mætir Frakklandi á Parc des Princes í undankeppni HM 2026 annað kvöld. Kristian Nökkvi kvaðst spenntur fyrir því að spila á heimavelli Evrópumeistara Parísar SG og sagði undirbúning fyrir leikinn hafa gengið vel.
„Ég held að undirbúningurinn hafi bara gengið vel. Við erum bara búnir að fara á eina æfingu hérna í Frakklandi. Það verður góð æfing í dag og svo er leikurinn á morgun.“
Skiptir ekki máli í dag
Kann hann vel við sig í frönsku höfuðborginni. „Það er mjög indælt að vera hérna. Hópurinn er þéttur. Maður er aðeins búinn að sjá borgina, þetta er frábær borg.“
Kristian Nökkvi skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í 5:0-sigri á Aserbaídsjan síðastliðið föstudagskvöld. Hugsanlega kom Daníel Leó Grétarsson þó við boltann.
„Fyrir mér var þetta sending inn í/skot og þetta fór bara í gegnum allan pakkann. Það var einhver snerting þarna en hvort það hafi verið varnarmaður eða Danni, það bara skiptir ekki máli í dag,“ sagði sóknartengiliðurinn hreinskilinn um markið.
Kann vel við sig á nýjum slóðum
Spurður hvort hann væri spenntur að mæta einhverjum vissum stórum nöfnum í franska landsliðinu sagði Kristian Nökkvi:
„Nei, ekkert þannig. Það er bara allt liðið. Við ætlum að fara í leikinn til þess að vinna hann.“
Hann skipti í sumar frá Ajax til Twente í Hollandi og nýtur sín vel hjá nýju félagi.
„Ég kann mjög vel við mig. Það er mjög góður hópur þar en við þurfum bara að fara að vinna fleiri leiki. Það er ekkert flóknara en það. Við erum með nógu gott lið í það.“