mán. 8. sept. 2025 18:02
Lögreglan gefur ekki upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar.
Verjast frétta af rannsókn á brotum á Múlaborg

Lögreglan verst allra frétta af rannsókn á meintum kynferðisbrotum starfsmanns á leikskólanum Múlaborg gegn börnum. Í síðustu viku fengust þær upplýsingar frá Bylgju Hrönn Baldursdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar, að erfitt væri að segja til um hve mörg meint brot af hálfu starfsmannsins lögreglan hefði fengið ábendingar um, en verið væri að taka það saman.

Í upphafi var um að ræða eina tilkynningu um meint brot og var starfsmaðurinn handtekinn strax í kjölfarið og færður í gæsluvarðhald. Síðar bárust ábendingar um mögulega meint brot hans gegn fleiri börnum á leikskólanum og staðfesti Bylgja í samtali við mbl.is að verið væri að skoða þær ábendingar.

Spurð út í það í dag hvort búið væri að taka saman upplýsingar um fjölda meintra brota sem væru til rannsóknar sagðist Bylgja ekki geta gefið neinar upplýsingar núna. Varðandi stöðuna á rannsókninni sagði hún það „allt í ferli.“

Bylgja var jafnframt spurð hvort búið væri að ræða við börn á fleiri deildum en þeirri sem maðurinn starfaði síðast á og svaraði hún á þessa leið: „Það er ekki neitt eins og staðan er núna.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/02/erfitt_ad_segja_til_um_fjolda_meintra_brota/

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/25/oanaegja_med_ad_ekki_hafi_verid_raett_vid_oll_borni/

Metið í samráði við barnavernd

Eins og greint hefur verið frá á mbl.is voru foreldrar margir hverjir ósáttir með að aðeins hefði verið rætt við börnin á deildinni sem maðurinn starfaði á, en ekki leikskólanum öllum, í ljósi þess að hann starfaði á fleiri deildum þau tæpu tvö ár sem hann var starfsmaður á Múlaborg.

Í síðustu viku sagði Bylgja að það þyrfti að meta í samráði við barnavernd hvort rætt yrði við börnin á hinum deildunum.

Hvað gagnrýni foreldra varðar sagði Bylgja alla hafa rétt á að gagnrýna en málið væri unnið eins vel og hægt væri með þeim mannskap sem lögreglan hefði yfir að ráða.

Maðurinn verður í gæsluvarðhaldi til 24. september, að öllu óbreyttu.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/27/framlengja_gaesluvardhald_um_fjorar_vikur/

 

til baka