þri. 9. sept. 2025 10:00
Það þykir mjög jákvætt merki að komast í fyrirtækjahóp S&P 500 og sömuleiðis neikvætt fyrir félag að vera hent þaðan út.
Robinhood inn og Caesars út

Fyrirtækið S&P Dow Jones Indices, sem heldur utan um S&P 500-vísitöluna, tilkynnti á föstudag að þrjú ný fyrirtæki yrðu tekin inn og þremur skipt út.

S&P 500-vísitalan, sem hóf göngu sína í mars 1957, vaktar hlutabréfaverð 500 stærstu hlutafélaga Bandaríkjanna mælt í markaðsvirði og umfangi viðskipta. Þykir vísitalan gefa góða mynd af ástandi bandarísks hlutabréfamarkaðar, og hefur það löngum þótt einföld og árangursrík leið að fjárfesta í sjóðum sem fylgja S&P 500 til að dreifa áhættu og njóta góðs af uppgangi bandarísks verðbréfamarkaðar frá ári til árs.

Athygli vekur að nú bætist félagið Robinhood Markets við listann og kemur í stað spilavíta- og hótelrisans Caesars Entertainment sem meðal annars rekur fjölda hótela í gleðiborginni Las Vegas.

Robinhood Markets er ungt félag, stofnað árið 2013, og heldur úti samnefndu snjallsímaforriti sem slegið hefur í gegn sem gátt fyrir verðbréfaviðskipti. Hefur velgengni Robinhood m.a. byggst á því að auðvelda almenningi að kaupa og selja verðbréf þökk sé notendavænu forriti og lágum þóknunum.

Það sem af er þessu ári hefur hlutabréfaverð Robinhood hækkað um nærri 157% og er félagið allt metið á rösklega 91 milljarð dala. Robinhood er með fyrstu fjártæknifyrirtækjum til að komast inn í S&P 500 en í maí síðastliðnum var rafmyntakauphöllinni Coinbase bætt við vísitöluna.

Ceasars Entertainment hefur aftur á móti átt í töluverðum vandræðum og hlutabréfaverð félagsins lækkað um tæp 27% undanfarið ár. Markaðsvirði Caesars náði hámarki haustið 2021 en hefur lækkað um þrá fjórðu síðan þá.

Einnig bætast við vísitöluna fyrirtækin AppLovin og Emcor. Fyrrnefnda félagið er eins konar auglýsingaheildsali fyrir snjallsímaforrit og hið síðarnefnda þjónustar ýmiss konar iðnað og orkuinnviði. Í skiptum fyrir þessi tvö fyrirtæki losnar vísitalan við skuldabréfaviðskiptagáttina MarketAxess og sólarorkufyrirtækið Enphase Energy. 

til baka