Samtök olíuframleiðsluríkja og samstarfsþjóðir þeirra, OPEC+, sammæltust um það í gær að auka framleiðslu sína enn frekar, um 137.000 föt af olíu á dag.
Þessi auknu framleiðsluviðmið taka gildi í október en OPEC+ hefur bætt við olíuframboðið í jöfnum skrefum síðan í apríl og þannig undið ofan af fyrri skerðingu sem komið var á 2022.
Hækkunin nú er minni en áður, en í bæði júní og júlí bættu samtökin við 411.000 fötum og 550.000 fötum í ágúst og september. Það sem af er þessu ári nemur aukningin hjá OPEC+ 2,5 milljónum fata og jafngildir það 2,4% af olíueftirspurn á heimsvísu.
Greinendur benda á að hækkuninni nú hafi ekki síst verið ætlað að auka markaðshlutdeild OPEC+ og virðast framleiðsluríkin reiðubúin að sætta sig við möguleikann á verðlækkun. Þykir þegar mikið framboð af olíu en eftirspurnin minnkar jafnan þegar líður á veturinn og því sennilegt að heimsmarkaðsverð fari lækkandi.
Breytt framleiðslustefna OPEC+ á árinu er líka rakin til þrýstings frá Donald Trump en lægra eldsneytisverð hjálpar Bandaríkjastjórn að halda verðbólgu í skefjum. Hefur olíuverð lækkað um 15% það sem af er þessu ári.