mán. 8. sept. 2025 15:40
Shigeru Ishiba tilkynnir um afsögn sína á blaðamannafundi. Það hefur gengið á ýmsu þetta tæpa ár sem hann hefur verið við völd.
Ishiba kveður með tollasamning í höfn

Það kom fáum í opna skjöldu að Shigeru Ishiba skyldi segja af sér um helgina.

Ishiba varð hlutskarpastur í prófkjöri Frjálslynda lýðræðisflokksins (LDP) haustið 2024 og settist í forsætisráðherrastólinn 1. október síðastliðinn. Fyrsta verk hans var að slíta neðri deild þingsins og boða til kosninga til að styrkja umboð sitt, en það vildi ekki betur til en svo að LDP tapaði fjölda sæta.

Kosningar til efri deildar þingsins fóru fram í júlí og aftur missti LDP mikið fylgi en var þó eftir sem áður stærstur allra flokka, enda rótgróin valdastofnun og aðeins hægt að finna örfá stutt tímabil í 70 ára sögu flokksins sem hann var ekki við völd.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði Ishiba sagt af sér í júlí, líkt og margir háttsettir flokksbræður hans hafa gert, en hann ákvað að stíga ekki til hliðar strax, með þeim rökum að fylgja þyrfti tollaviðræðum við Bandaríkin í höfn. Í síðustu viku fékkst loks niðurstaða í viðræðurnar og kveður samkomulag landanna tveggja m.a. á um 15% toll á japanskar bifreiðar, í stað 25% eins og áður hafði verið hótað, og þá mun Japan fjárfesta með beinum hætti í Bandaríkjunum fyrir 550 milljarða dala.

Samflokksmenn Ishiba höfðu boðað til atkvæðagreiðslu í dag, mánudag, til að knýja fram formannskosningu og hefði slík aðgerð þvingað Ishiba úr embætti.

Á fundi með blaðamönnum sagðist Ishiba vilja koma í veg fyrir átök og klofning innan flokksins með afsögn sinni, en flokksmenn hafa skipað sér í tvær fylkingar þar sem önnur er íhaldssamari og hin frjálslyndari. Mun Ishiba sinna skyldum embættisins þar til LDP hefur fundið sér nýjan leiðtoga.

Dýr hrísgrjón og breiðir Kínverjar

Nýs forsætisráðherra bíður ærinn starfi og glímir Japan við efnahagsvanda auk þess sem vaxandi spennu gætir í samskiptum við Kína. Nágranni Japans í vestri þykir vera að gera sig æ breiðari og hélt t.d. risastóra hersýningu í vikunni sem leið í tilefni af því að 80 ár voru liðin frá því kínverskir hermenn stökktu japanska hernum á brott í lok seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í efnahagsmálum er verðbólgan mál málanna og hefur haldist mestan part á bilinu 3 til 4% frá endalokum kórónuveirufaraldursins. Þykir það mikið í Japan þar sem verðbólga hefur sjaldan farið yfir 1%, og hefð er fyrir því að laun haldist mjög stöðug svo að verðbólga leiðir hratt til kaupmáttarlækkunar.

Hækkun hrísgrjónaverðs fékk mikla athygli á kjörtímabilinu en verðið rauk upp árið 2024 vegna lélegrar uppskeru árið á undan og vegna vaxandi neyslu sem rakin var til fjölgunar ferðamanna. Verðið á hrísgrjónapoka meira en tvöfaldaðist á tímabili og var það ekki fyrr en í sumar að greina mátti merki um batnandi framboð og lækkandi verð.

Vaxtahækkun bíður

Samhliða öllu þessu bíður Japansbanki átekta, en á síðasta ári voru stýrivextir hækkaðir ögn svo að þeir voru ekki lengur neikvæðir. Stýrivextir í Japan hafa verið lágir eins lengi og elstu menn muna og fóru niður fyrir núllið árið 2016 en eru núna 0,5%.

Greina má af ummælum Kazuo Ueda seðlabankastjóra Japans að vextir verði ekki hækkaðir í bráð þó að verðbólga sé yfir mörkum, en núgildandi spá gerir ráð fyrir 2,2 til 2,7% verðbólgu næsta vor, og að í ljósi óvissu vegna tollamála og efnahagshorfa almennt sé skynsamlegast að halda stýrivöxtum óbreyttum að svo stöddu.

til baka