Engin bein tenging er milli Vatnafjalla og eldfjallsins Heklu norðvestan við þau. Vatnafjöll er þekkt jarðskjálftasvæði og þar mældust örfáir skjálftar í síðustu viku.
Jarðskjálfti að stærð 3,3 mældist í Vatnafjöllum laust fyrir klukkan tvö í dag.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/jardskjalfti_upp_a_3_3_naerri_heklu/
Örfáir í síðustu viku
Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is, að fáir eftirskjálftar hafi mælst. Sérfræðingar Veðurstofunnar fylgist að sjálfsögðu alltaf með virkni sem þessari.
„Það voru örfáir skjálftar þarna í síðustu viku á sama stað, stærsti var 1,7 að stærð. Þetta er þekkt svæði og þokkalega algengur staður fyrir skjálftavirkni – austasti hlutinn af Suðurlandsbrotabeltinu,“ segir Ingibjörg.
Skjálfti að stærðinni 2,6 mældist á svæðinu í janúar að sögn Ingibjargar og þar á undan að stærðinni 3,2 í nóvember 2023. Tveimur árum áður eða í nóvember 2021 mældist þar skjálfti að stærðinni 4,4.
Ingibjörg segir Vatnafjöll vera eldstöðvakerfi og að þar séu gígar og gömul hraun en engin bein tenging á mill þeirra og eldfjallsins Heklu.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/05/skelfur_vid_kleifarvatn_og_serfraedingar_greina_lan/
Milli 20 og 40 skjálftar á dag
Talsverð smáskjálftavirkni hefur verið í Krýsuvík undanfarna daga og vikur. Ingibjörg segir virknina bundna við Móhálsadal vestan við Kleifarvatn og að meira og minna hafi verið um að ræða daglega smáskjálfta.
„Síðustu vikuna hafa mælst á milli 20 og 40 skjálftar á dag. Það var þarna einn dagur þar sem talsvert fleiri skjálftar mældust eða um 90 en það var í kjölfar stærri skjálfta.“
Að sögn Ingibjargar skoða sérfræðingar enn hvað valdið getur því landsigi sem orðið hefur á svæðinu.