mán. 8. sept. 2025 15:50
Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur er ósátt við að Bókasafnssjóður höfunda sé skorinn niður.
Rithöfundar „í jólaköttinn“

Rithöfundar eru ósáttir við skilaboð ríkisstjórnarinnar til þeirra nú þegar jólabókaflóð er í aðsigi. Enn á að skera niður svokallaðan Bókasafnssjóð höfunda.

Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur skrifar um þetta í pistli á Facebook. „Í dag, á degi læsis, á þessari aðventu bókajólanna fá rithöfundar, þýðendur og teiknarar naprar kveðjur í fjárlagafrumvarpinu. Bókasafnssjóður höfunda hefur enn verið skertur,“ skrifar Arndís.

„Það sem er hvorki gegnsætt né sanngjarnt er hvernig Bókasafnssjóður höfunda er fjármagnaður. Lög sjóðsins skilgreina ekki stærð hans og unnt er að stækka hann og minnka eftir geðþótta. Geðþótti stjórnvalda í fjárlögum ársins 2025 bauð að sjóðurinn væri skorinn niður um fimmtung.

Í nýbirtu fjárlagafrumvarpi er sultaról höfunda enn hert – sjóður sem var 184,6 milljónir fyrir tveimur árum og 197,4 milljónir fyrir fimm skal nú vera 144,5 milljónir. Ef verðlagsþróun er skoðuð eru 197,4 milljónir árið 2021 jafngildi 265 milljóna nú. Skerðingin jafngildir 45%,“ skrifar hún enn fremur.

Arndís segir enn fremur að þessi ákvörðun hafi hvergi verið réttlætt. Enginn hafi reynt að halda því fram að rithöfundar séu ofaldir, að það komi út of mikið af íslenskum bókum eða að of mikil áhersla sé lögð á að viðhalda íslenskri tungu. Það væri enda fráleitt.

„Í stjórnarsáttmála kvaðst ríkisstjórnin ætla að styðja við listir og menningu með myndarlegum hætti. Listir og menning verða ekki til án listamanna. Fjarskalega er lítilmannlegt að leggja til þeirrar láglaunastéttar með niðurskurðarhnífnum,“ skrifar Arndís að endingu.

 

 

 

 

til baka