fim. 11. sept. 2025 15:11
Þessi orðamergð sýnir hve mörg örnefni utan strandlínu eru í kortasjánni. Til að hægt sé að staðsetja örnefni þurfa hnit að fylgja þeim.
Mörg örnefni á hafi á eftir að hnitsetja

Ein helsta ástæða þess að við gefum stöðum í umhverfi okkar heiti er svo við getum staðsett okkur innan þess, fyrir okkur sjálf og gagnvart öðrum. Þetta skiptir ekki síst máli á sjó þar sem mikilvægt er að rata á þá staði þar sem vel fiskast. Í áraraðir hefur örnefnum á sjó verið safnað rétt eins og á landi, en langflest örnefni sem er að finna fyrir utan strandlínuna eru heiti á fiskimiðum. Örnefnagrunnur Náttúrufræðistofnunar heldur utan um þau örnefni sem búið er að staðsetja með hnitum og birtir þau í kortasjá sinni. Því verkefni stýrir Bjarney Guðbjörnsdóttir umsjónarmaður örnefnagrunnsins en hún bæði safnar gögnum fyrir stofnunina og setur inn í kerfið.

Bjarney leitar fanga víða ef þess gefst kostur en hún hafði meðal annars samband við fyrirtækið Trackwell sem heldur úti fiskveiðieftirlitskerfi. Þar sem kerfið tekur staðsetningar skipa sem eru í viðskiptum við fyrirtækið var hægt að hnitmerkja mörg örnefni út frá upplýsingum frá Trackwell. Gögnin sem hún vinnur með eru þó með ýmsu sniði því þau tínast til frá mismunandi stofnunum og einstaklingum.

Mörg örnefni enn óskráð

„Við höfum til dæmis tekið gögn upp úr eldri sjókortum frá Landhelgisgæslunni en hún sér um að gefa út sjókort,“ segir Bjarney. „Við höfum líka fengið gögn frá Hafrannsóknastofnun og Trackwell og svo höfum við fengið gögn frá Orkustofnun sem voru flest í grennd við Drekasvæðið.“ Þá nefnir hún að Náttúrufræðistofnun og almenningur allur hafi aðgang að töluverðu magni gagna úr örnefnasafni Árnastofnunar í örnefnaskrám sem finna má á slóðinni nafnid.is. Bjarney útskýrir að þar sem eðlilega sé mjög erfitt að staðsetja sig úti á hafi sé nauðsynlegt að örnefnum á sjó fylgi hnit eigi þau að rata inn í örnefnagrunninn. Það sé þó ekki raunin um öll þau gögn sem stofnunin hefur aðgang að.

 

Bjarney segir að mismunandi sé eftir eðli gagnanna hversu mikið af örnefnunum sem koma fram í þeim hafi verið skráð inn í kerfið. Stundum fær hún Excel-skjal með hnitum sem þá er auðvelt að færa inn, til dæmis í tilfelli Trackwell. Einnig fær hún sendar til sín loftmyndir eða kort af jörðum sem örnefni hafa verið merkt inn á. Öðru máli gegnir um vélrituð og handskrifuð skjöl eins og þau sem Árnastofnun geymir. Sum þeirra eru mjög gömul og ljóst að Íslendingar hafa í árafjöld reynt að halda staðsetningu góðra fiskimiða til haga. Eðli málsins samkvæmt fylgja svo gömlum skjölum engin hnit. „Við getum fært örnefni inn í kerfið ef við erum með staðsetningu á þeim en við setjum auðvitað ekkert inn nema að vita hvar það er,“ segir Bjarney. Enn þá eru því töluverðar upplýsingar í þeim skjölum sem aldrei hafa verið nákvæmlega staðsettar. Þess vegna gefst fólki kostur á að fá hjá Náttúrufræðistofnun aðgang að sérstökum örnefnaritli til að afmarka örnefnin inn í örnefnagrunninn eða stórt útprent af landsvæði á gervitunglamynd sem hægt er að merkja inn á og senda til Náttúrufræðistofnunar.

Örnefni á sjó oft skemmtileg

Örnefni á sjó og heiti á fiskimiðum hafa orðið til innan afmarkaðs samfélags og eru á svæðum sem fæstum eru aðgengileg nema sjófarendum. Þau virðast bæði fjölbreytt og frjálsleg enda hafa þau þróast náttúrulega og fest sig í sessi í samskiptum sjómanna. Þau geta því verið nokkuð frábrugðin örnefnum sem við þekkjum á landi en yfirleitt liggur þó að baki þeim einhver skýring á því hvaðan staðarheitið kemur. Til að mynda er Rósagarðurinn, fiskimið suðvestan við landið, sagður draga heiti sitt af kóröllum sem oft komu upp með trollunum. Sumar skýringarnar hafa verið færðar í örnefnagrunninn en þær eru meðal annars fengnar frá Hafrannsóknastofnun. Með gögnum þeirra fylgja örnefnunum stundum mjög góðar útskýringar sem skipstjórar hafa sjálfir fært inn.

 

Blaðamanni finnst liggja beint við að spyrja Bjarneyju hvort einhver örnefni séu í sérstöku uppáhaldi. „Örnefni á sjó eru oft skemmtileg. Mér finnst ég muna eftir því að einhver þeirra hafi jafnvel þótt of dónaleg til að færa inn í kerfið,“ segir hún kímin, „en þetta er það sem þessi staður heitir. Þetta eru nú bara heimildir.“ Bjarney nefnir nokkur örnefni sem hún hefur sérstaklega gaman af, til að mynda Ostahryggur, Ölæðisbanki og Sláturhús. Þá segir hún að sér þyki sagan á bak við örnefnið Hampiðjutorgið sérstaklega skemmtileg, en hún fylgir þessari frétt.

Opin fyrir ábendingum

Örnefnasöfnun á hafi er ekki verkefni sem Bjarney sinnir öllum stundum. Hún vinnur með gríðarlegt magn gagna og þó að tveir starfsmenn vinni við örnefnagrunninn komast þær ekki yfir allt. Nokkur tími getur því liðið á milli þess að þær leita uppi ný gögn. Hnit frá Trackwell fengu þær síðast árið 2020 og enn lengra er síðan þær fengu ný gögn frá Hafrannsóknastofnun. Þá eru ótalin þau gögn sem eru til hjá Árnastofnun og ekki er hægt að merkja nema með því að hafa þekkingu á svæðinu.

 

Bjarney segist alltaf hafa augun opin fyrir nýjum leiðum til að safna fleiri örnefnum á hafi. „Einhvern tímann var ég til dæmis að reyna að finna smábátasjómenn sem gætu verið með einhverjar fleiri upplýsingar um fiskimið og mið á landi,“ segir Bjarney og nefnir að trillusjómenn séu stundum með aðrar upplýsingar en þeir sem eru á togurum. Hún segir að eflaust sé ýmiss konar fróðleik enn þá að finna sem ekki hefur verið skráður. „Núna, með tilkomu tölvutækninnar og mynda, er hægt að staðsetja fyrirbæri mun ítarlegar án þess að vera heft af kortblaðastærð og skiptir þá ekki máli hvort við erum á landi eða sjó.

Aðspurð hvort áhugasamir skipstjórar og sjómenn geti sett sig í samband við stofnunina ef þeir hafa upplýsingar um örnefni segist Bjarney taka öllum ábendingum fagnandi. „Endilega, sendið bara póst á natt@natt.is. Það ratar beint til okkar í örnefnunum.“ Hún bendir jafnframt á að gaman geti verið fyrir eldri kynslóðir að rifja upp örnefni með yngri kynslóðum sem þekkja síður til. Hægt er að skoða þau örnefni sem þegar hafa verið hnitsett í örnefnagrunninum með því fara á kortasjá Náttúrufræðistofnunar, ornefnasja.gis.is. Þar er hægt að haka í Örnefni í hliðarstikunni til vinstri og skoða sig um á hafinu umhverfis landið.

til baka