Upplýsingar um hverjar eru mest heimsóttu borgir heims koma eflaust á óvart. Flestir gætu haldið eina af þessum borgum vera Tókýó í Japan eða jafnvel New York, en samkvæmt Euromonitor International City Destination-vísitölunni eru aðrar borgir sem bera af í vinsældum.
Ferðavefurinn Condé Nast tók saman lista yfir þær tíu borgir sem eru vinsælastar.
1. Bangkok, Taílandi
Bangkok trónir á toppi listans en þangað komu um 32 milljónir ferðamanna árið 2024. Borgin iðar af lífi þar sem tuk-tuk-bílar þræða sig í gegnum traffíkina, langir bátar líða eftir Chao Phraya-ánni og sölubásar fylla næturloftið af límónuilmi, chili og kolareyk.
2. Istanbúl, Tyrklandi
Meira en 23 milljónir manna heimsóttu Istanbúl árið 2024, borgina mitt á milli Evrópu og Asíu. Ferjur sigla um Bosporussundið frá morgni til kvölds, stútfullar af farþegum. Í Istanbúl er mikið um útimarkaði, þar sem hægt er að versla saffran og kopar, í nálægð við falleg kaffihús og gallerí. Menningin birtist í hverju fótmáli.
3. London, Bretlandi
Í þriðja sæti á listanum er höfuðborg Bretlands, London. Þangað komu 22 milljónir gesta á síðasta ári. Aðdráttarafl borgarinnar felst í dómkirkjum og klaustrum, krúnudjásnum og leikhúsi Shakespears. Víðs vegar um borgina eru matarmarkaðir inni í stórum vöruhúsum, verslanir, í Soho-hverfinu er framúrstefnulegt leikhús og ekki má gleyma að minnast á vinsæla ferðamannastaði eins og Big Ben og Buckingham-höll.
Aðrar borgir á listanum eru: Hong Kong í Kína, Mecca í Sádi-Arabíu, Antalya á Tyrklandi, Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Macau í Kína, París í Frakklandi og Kuala Lumpur í Malasíu.