mán. 8. sept. 2025 19:45
Vilhjálmi Birgissyni er mjög í niðri fyrir gagnvart aðgerðum í þágu öryrkja sem hann segir að séu fjármagnaðar af verkafólki.
„Verið að eyðileggja lífeyrissjóðskerfið“

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir það í sjálfu sér ánægjulegt að víxlverkunarfrumvarp Ingu Sælands, félags- og húsnæðismálaráðherra, sé út af borðinu. Það breyti því þó ekki að enn standi til að afnema framlag ríkisins til lífeyrissjóða, svokallað jöfnunarframlag.

Vilhjálmur lítur svo á að búið sé að eyðileggja lífeyrissjóðskerfið með þessu.

Inga Sæland kynnti á dögunum bætt kjör örorkulífeyrisþega sem Vilhjálmur segir dýru verði keypt og að verkamenn þurfi að greiða fyrir það.

Lífeyrinn mun skerðast

Framlag til jöfnunar á örorkubyrði var rúmir 7,2 milljarðar á síðasta ári, verður 4,6 milljarðar í ár en ekkert á næsta ári. Tilgangur þess er að fjármagna hið nýja kerfi við greiðslu á örorkulífeyri að sögn Vilhjálms.

Hann segir þetta mikinn skell fyrir fólk sem sé fast í viðjum lífeyrissjóða og að fyrirséð sé að ellilífeyrir þeirra hópa sem greitt hafa í verkamannalífeyrissjóði muni skerðast.

Sérstaklega á þetta við um lífeyrisþega í Gildi og Festi þar sem hlutfall örorkulífeyrisþega er hátt.

„Þeir lífeyrissjóðir sem eru með mestu örorkubyrðina þurfa að skerða réttindi sinna lífeyrisþega. Þetta mun raungerast í verkamannalífeyrissjóðum því hlutfall örorkulífeyrisþega þar er mun hærra en í öðrum lífeyrissjóðum,“ segir Vilhjálmur.

Óréttlæti

Hann segir málið með ólíkindum og veki upp spurningar um ójöfnuð. Til einföldunar bendir hann á að óbreyttu muni einstaklingur í Lífeyrissjóði verslunarmanna fá um 15% meira greitt en sá sem í verkamannasjóðum þar sem hlutfall öryrkja er hátt.

Er það þrátt fyrir að báðir hafi greitt jafn mikið inn í sjóðinn.

„Þetta er svo mikið óréttlæti að það er með ólíkindum,“ segir Vilhjálmur.

„Það er að hluta til verið að láta þá sem eru á vinnumarkaði núna í verkamannastörfum og þá sem eru hættir að vinna en hafa greitt í verkamannasjóði, greiða fyrir þetta, að stórum hluta til hið minnsta. Þetta er mjög ósanngjarnt.“

Eyðilegging gagnvart verkafólki

Hann segir að í sínum huga sé verið að eyðileggja lífeyrissjóðskerfið.

„Með þessu er verið að eyðileggja lífeyrissjóðskerfið, allavega gagnvart verkafólki. Það er ekki hægt að lögþvinga fólk til að vera í ákveðnum lífeyrissjóði þar sem réttindi þín eru 15% lakari en í öðrum sjóði, bara vegna þess að þú ert verkamaður. Í því felst ekkert réttlæti og sanngirni,“ segir Vilhjálmur.

til baka