mán. 8. sept. 2025 15:35
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, bendir á að vaxtastig ríkisins geri það að verkum að hver fjögurra manna fjölskylda í landinu greiði um 1,3 miljónir á ári í vexti gegnum skattgreiðslur sínar.
Skattar á fyrirtæki skaðlegastir

„Okkar fyrstu viðbrögð eru að minna á að skattheimta er nær hvergi meiri en hér á landi,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is, innt eftir sýn SA á fjárlagafrumvarp næsta árs sem fjármálaráðherra hefur nú kynnt.

Segir Sigríður hátt skattastig á Íslandi vera þrátt fyrir þá stöðu að Íslendingar séu hlutfallslega tiltölulega ung þjóð og auk þess herlaus. „Það segir allt um mikilvægi þess að horfa á útgjaldahliðina þegar við stefnum að jafnvægi í ríkisrekstrinum,“ segir framkvæmdastjórinn.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/dadi_mar_fjarlagafrumvarpid_adhaldssamt/

Tvennt segir hún stinga í stúf við fyrstu sýn á fjárlagafrumvarpið sem annars vegar séu hin háu vaxtagjöld ríkisins. „Við erum núna með fjárlög sem segja að 125 milljarðar fari í vaxtagjöld á næsta ári. Það þýðir miðað við hverja fjögurra manna fjölskyldu að við erum að borga 1,3 milljónir á ári í vexti gegnum skattana okkar og ég held að við viljum öll sjá þennan útgjaldalið í ríkisrekstrinum dragast saman,“ segir Sigríður.

Lífeyrisbreytingarnar hálfklárað verk

Hafi SA lagt áherslu á að ríkið noti tækifærið og endurskoði eignasafn sitt, selji ákveðnar eignir, greiði niður skuldir og nái þannig að lækka vaxtakostnaðinn. „Við höfum til dæmis minnt á að nákvæmlega sömu rök gilda fyrir því að selja Landsbankann og Íslandsbanka,“ heldur hún áfram og kemur að síðara atriðinu sem hún kveður stinga í augu í frumvarpinu.

„Hitt sem vekur athygli er að við sjáum það glöggt af fjárlögunum að þeir útgjaldaliðir sem hækka hvað mest milli ára tengjast örorku. Við þurfum einfaldlega að horfast í augu við það að þessar breytingar, sem tóku gildi núna 1. september á lífeyriskerfinu – margar þeirra voru mjög jákvæðar og góðar – eru samt sem áður bara hálfklárað verkefni,“ segir Sigríður af félagslegu umbótunum.

Segir hún um helming þeirra sem fá örorkubætur einnig fá lífeyri vegna örorku greiddan úr lífeyrissjóðum. „Það var aldrei samið um að örorkulífeyrir ætti að vera jafngildi 90 til 100 prósenta af miðgildi launa, hvort sem við erum að tala um skrifstofufólk, iðnaðarmenn eða verkafólk. Við erum með lífeyrissjóðskerfi sem er þannig uppbyggt að ef þú ert 25 ára og að byrja á vinnumarkaði og eyðir ævi þinni á vinnumarkaði færðu, miðað við þau iðgjöld sem við borgum í lífeyrissjóð, um 76 prósent af tekjunum þínum í eftirlaun. Það á ekki að vera hagstæðara fyrir fólk að vera á örorkulífeyri en að vera annars vegar á vinnumarkaði eða hins vegar á eftirlaunum,“ segir framkvæmdastjórinn.

Góð rekstrarskilyrði frekar en skattar

Þegar litið sé til tekjuhliðar frumvarpsins sé mikilvægt að horfa til þess að vilji SA standi til þess að lífskjör batni á Íslandi. „Það gerist með auknum umsvifum í hagkerfinu og hagvexti og hagvexti á mann eins og sést svo glögglega af umræðu um atvinnustefnu og vaxtaáætlunina sem nú stendur til að móta. Hver einasta prósenta í hagvexti skilar ríkinu fimmtán milljörðum á ári í skatttekjur svo það er miklu hagkvæmara fyrir ríkið að stuðla að góðum rekstrarskilyrðum fyrirtækja en að ráðast í skattahækkanir á atvinnulíf,“ segir Sigríður.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/skattahaekkanir_nemi_28_milljordum_krona/

Bendir hún á að þegar horft sé á fjárlagafrumvarpið sé augljóst að í því séu skattahækkanir, skatta eigi samkvæmt frumvarpinu að hækka um 28 milljarða á ári og nú þegar sé búið að skattleggja sjávarútveginn með hækkun veiðigjalda sem skili um átta milljörðum í ríkissjóð og þá séu fleiri væntanleg gjöld ótalin, svo sem kílómetragjald, kolefnisgjald og fleiri.

„Þetta eru þau atriði sem við höfum augun á þegar við förum gegnum þetta frumvarp núna og það skiptir miklu máli að muna að skattar á fyrirtæki eru skaðlegustu skattarnir þegar kemur að hagvexti. Það er miklu meiri ávinningur fyrir okkur að sjá hagvöxtinn taka við sér og þær horfur snúast við en að horfa til skemmri tíma þegar við metum fjárlögin,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að lokum um nýkynnt fjárlög.

til baka