Formaður FKA telur lítið hafa þokast í átt að jafnrétti síðustu ár. Hún bendir á að enn sé staðreyndin sú að þegar ráðið sé í stjórnendastöður, stöður millistjórnenda eða í framkvæmdastjórnir þá sé hlutfallið að fyrir hverja eina konu sem er ráðin séu ráðnir inn fjórir karlar. Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir er gestur Dagmála í dag og ræðir þar meðal annars jafnréttisbaráttuna og stöðuna á þeim vettvangi.
„Getum við ekki bara breytt þessu?“ spyr hún. „Jafnrétti er bara ákvörðun,“ bendir hún á.
En ef við hörfum á það sem þegar hefur áunnist í jafnréttismálum og horfum á einhvern endapunkt, hvað erum við komin langt? Tuttugu, þrjátíu eða sjötíu prósent?
„Nei, nei. 2018 var Jafnvægisvogin stofnuð og hún var samstarfsverkefni FKA og ríkisstjórnarinnar. Það eru sjö ár síðan og punkturinn hefur varla haggast. Ef við ætlum að fara á þessum hraða sem við erum á núna, síðan 2018, þá held ég að við munum ná þessu svona 2070. Þetta er alveg á hraða snigilsins, því miður.“
„Pínu sorglegt“
Talið berst að jafnlaunavottun sem ríkisstjórnin hefur boðað að verði breytingar á. Er Inga sammála þeirri sýn?
Hún segist hafa séð þessa frétt sem kom frá Kristrúnu Frostadóttur um að draga úr vægi jafnlaunavottunar. „Mér finnst það bara sorglegt að forsætisráðherra, sem er kona, sjái það sem eitt af verkefnum á sínu fyrsta starfsári að ætla að draga úr því. Mér finnst það pínu sorglegt. Staðreyndin er sú og það sést á mælaborði Jafnvægisvogarinnar að við erum ekki að ná árangri.“
Þátturinn í fullri lengd er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins og er hægt að nálgast hann með því að smella á linkinn hér að neðan.