Notkun okkar á hafnarsvæðum hefur breyst verulega á síðustu áratugum og þol okkar fyrir bæði lykt og hlutum sem fylgja hefðbundinni atvinnustarfsemi í sjávarútvegi hefur minnkað. 200 mílur ræddu við Áka Guðna Karlsson þjóðfræðing sem hefur í nokkrum fyrirlestrum velt þessum vendingum fyrir sér.
Sjávarútvegur breyst hratt á liðnum árum
Breytt notkun okkar á hafnarsvæðum er ekki síst tilkomin vegna þess að sjávarútvegur hefur breyst mjög mikið á tiltölulega skömmum tíma, meðal annars fyrir tilstilli tækninýjunga. Ein birtingarmynd þessara breytinga er að bæði lyktar- og hljóðheimur hafnanna er orðinn allt annar en hann var fyrir aðeins nokkrum áratugum. Lykt og hljóð eru þættir sem hafa mjög mikil áhrif á samband fólks við umhverfi sitt. Því er áhugavert að skoða hvernig tenging okkar við hafnarsvæði hefur sums staðar þróast samhliða breytingum á lykt og hljóði hafnanna.
„Á Húsavík hefur til dæmis margt breyst við höfnina,“ segir Áki. Hann þekkir vel til hafnarinnar á Húsavík, meðal annars í gegnum hvalasiglingar. „Hún er orðin stór hvalaskoðunarhöfn og í tengslum við það komu upp alls konar kaffihús þar sem fólk situr úti á palli og drekkur latté og borðar fínar kökur. Svo fer einhver hausaþurrkun í gang og allt í einu þarf að loka öllum gluggum og hurðum og enginn getur verið úti vegna lyktar.“ Hann segir að svona dæmi endurspegli vel hvernig notkun okkar á hafnarsvæðum hefur breyst og hvernig ákveðin átök geti myndast á milli gamals tíma og þess nýja.
Snyrtileg og hljóðlát höfn
Áki skoðaði Reykjavíkurhöfn sérstaklega en þá höfn hefur hann þekkt frá því hann var barn. Hann segir að í sinni æsku hafi höfnin einkennst af megnri lykt sem fylgdi virkri starfsemi á svæðinu og jafnvel skólpi sem gekk út í höfnina með tilheyrandi þef. Fiskilyktin hafi verið mikil þegar löndun stóð yfir, mun meiri lykt hafi borist af þangi en nú og þá hafi blandast inn í margrætt þefskýið sterk málningarlykt frá slippnum. Meiri ys og þys hafi verið á atvinnusvæðinu, kaðlar, net og annað tilheyrandi hafi tekið sitt pláss og mávar í ætisleit flogið gargandi yfir skipunum.
Þegar Áki fór fyrst að velta þessum breytingum fyrir sér þrammaði hann fram og til baka um Reykjavíkurhöfn og bar hana saman við minningar sínar úr æsku. „Ég áttaði mig á því hvað höfnin er orðin ofboðslega fín og snyrtileg. Hún er líka virkilega hljóðlát og örugg miðað við áður.“ Hann segir að jafnvel þegar komið sé út á enda hafnarinnar þar sem atvinnustarfsemin er mest, og Brim er með höfuðstöðvar og botnfiskvinnslu, sé það sama uppi á teningnum. „Maður sér að það er verið að skipa upp fiski, þetta er auðvitað stór uppskipunarhöfn. Það kemur samt engin lykt og það er ekkert slor og engir mávar því allt er svo vel frágengið. Allt kemur auðvitað ísað úr togurunum núna.“
Áki segir iðnaðinn hafa breyst svo mikið að þó að hann sé ennþá fyrir augum okkar, og sé jafnvel stærri en hann var, þá sé hann að vissu leyti orðinn ósýnilegri. „Hann er orðinn svo snyrtilegur. Það dettur engum í hug að fara að moka slori út yfir grjótgarðinn eins og var gert í gamla daga,“ segir hann. „Þannig að þú getur labbað um alla höfnina og finnur eiginlega hvergi fiskilykt. Það er dálítið fyndið því þetta er mjög stór uppskipunarhöfn, það er rosalega mikið af fiski sem fer þarna í gegn.“ Þanglyktin segir Áki að sé einnig að mestu horfin á braut vegna þess að síðustu áratugi hefur höfnin verið dýpkuð alls staðar. Engar grynningar eru á svæðinu nema nálægt Sjóminjasafninu þar sem malarkamburinn var skilinn eftir á litlum bletti og gamla Gullborgin stendur til sýnis sem minnisvarði um annan tíma.
Litlir fiskibátar farnir
Reykjavíkurhöfn er í raun afar mikilvæg höfn og þar er þrátt fyrir allt mikil starfsemi sem tengist sjávarútvegi á ýmsan hátt. „Þetta er mjög áhugavert því það er oft talað um raunhagkerfið úti á landi en að borgin sé neyslusvæði, borgin sé svona yfirbygging og þar sé stjórnsýslan. Höfnin í Reykjavík er svona þetta sýnilega merki um að í borginni sé líka iðnaður, að raunhagkerfið sé líka í Reykjavík.“ Áki segir að þess vegna veki það ákveðin viðbrögð hjá fólki þegar það áttar sig á því hvað ferðaþjónustan er farin að taka mikið pláss í höfninni. „Litlu fiskibátarnir eru flestir komnir inn í Kópavog. Það er eiginlega ekki pláss fyrir þá lengur í Reykjavíkurhöfn til að geta verið með svona smá drasl og sóðaskap sem getur fylgt veiðum og allri þeirri starfsemi. Það er alltaf minni og minni þolinmæði fyrir því.“
Flestum er ljóst að starfsemi á hafnarsvæðum hefur breyst rétt eins og aðrir atvinnuvegir. Athuganir Áka varpa ljósi á ákveðna togstreitu á milli mannlífs og iðnaðar sem verður að einhverju leyti til í kjölfarið. Menning og afþreying fikra sig nær höfninni en hluti starfseminnar sem tilvist hafnarinnar byggist á þarf að hopa á móti. Ýmis hafnartengd starfsemi hefur þurft að víkja út af breyttum áherslum í skipulagi hafnarsvæða.
Á Reykjavíkurhöfn eru nú hönnunarverslanir, veitingastaðir og sérbúðir í nokkrum bilum í gömlu verbúðalengjunni sem teygir sig út Fiskislóð. Fiskmarkaðurinn er orðinn mathöll að hluta og gamla síldarbræðslan hýsir Nýlistasafnið. Kútar Lýsis tróna þó enn þá hátt yfir Grandanum og þegar vindáttin er rétt leggur megna lýsislykt yfir svæðið. Áki bendir þó á að sú lykt sé ekki jafn sterk og hún var. „Þetta er náttúrulega eiginlega fyrsti mengandi iðnaðurinn á Íslandi, grútar- og lýsisbræðslurnar, og þefinn lagði langt út á sjó. Erlendir ferðamenn sem skrifuðu ferðabækur á nítjándu öld tala sérstaklega um fnykinn sem barst þegar þeir sigldu í átt að bæjum eins og Ísafirði, Reykjavík eða Akureyri. Þetta fylgdi bara þéttbýlinu, þessi fiskifnykur.“
Minna þol fyrir lykt
Fyrir mörgum Íslendingum var þessi lykt, sem oft er kölluð peningalykt, lengi hluti af daglegu lífi og eðlilegri starfsemi. „Manni var bara kennt að þola þetta,“ segir Áki. „Manni var kennt að þetta væri partur af lífinu.“ Þol Íslendinga fyrir alls konar lykt virðist með öðrum orðum hafa breyst á tiltölulega stuttum tíma og ýtir undir það að þessir tveir heimar, mannlíf og iðnaður, rekist á. Við sækjum þó mörg í höfnina, sitjum við borð með drykk eða disk og virðum fyrir okkur bátana. Það hefur undirrituð margsinnis gert sjálf, bæði á Húsavík og á Grandanum í Reykjavík, og notið þess að vera við hafið og höfnina. Jafnvel fett upp á trýnið þegar vindáttin hefur breyst og lyktin frá Lýsi borist að vitum hennar.
„Það er ákveðin nostalgía fyrir þessum gamla tíma og fólk gerir sér kannski alls konar háleitar hugmyndir um hvernig þetta var en það stenst ekki alltaf skoðun,“ segir Áki. Hann bendir þó áhugasömum á að uppi á Þúfu, listaverki Ólafar Nordal sem stendur við enda fiskvinnsluvinnslu Brims, sé lítill hjallur með nokkrum hertum hausum. Þar sé fiskilykt að finna fyrir þá sem leita.